Afleidd starfsemi

Álver á Íslandi eru langstærstu orkukaupendur landsins og standa þar með að mestu undir þeim gríðarlegu fjárfestingum sem Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki hafa ráðist í. En þau kaupa einnig margvíslegar aðrar vörur og þjónustu. Þar má nefna þjónustu af verktökum, verkfræðistofum, bönkum, verkstæðum, sveitarfélögum og ýmsum opinberum aðilum. Þá er um að ræða mikil vörukaup og viðskipti vegna flutninga milli landa og innanlands.

Árið 2014 áttu íslensk álver viðskipti við um 700 innlend fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum fyrir samtals um 24 milljarða króna. Þar eru orkukaup álveranna ekki innifalin.

Þegar ráðist er í uppbyggingu álvers kemur nýtt fé inn í viðkomandi sveitarfélag. Margir fá störf við bygginguna og þeir þurfa svo aftur á ýmis konar þjónustu að halda. Þessi margþættu áhrif sem leiða af uppbyggingunni hafa verið kölluð margfeldisáhrif og með því að líta einnig til þeirra má fá gleggri mynd af þeim áhrifum sem fjárfestingar á borð við byggingu álvers hafa í för með sér. Hluti af þessum margfeldisáhrifum kemur fram annars staðar en í heimabyggð. Til dæmis má gera ráð fyrir að umsvif á landsbyggðinni kalli á vinnu í stjórnsýslu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Mörg fyrirtæki, lítil og meðalstór,  byggja afkomu sína að miklu leyti á viðskiptum við álverin og hafa jafnvel sérhæft sig á því sviði. Sem dæmi um þessi umsvif má nefna að árið 2014 unnu 400 manns á vegum verktaka á álverssvæðinu í Reyðarfirði, eingöngu fyrir Fjarðaál og um 100 manns utan álversins í Straumsvík eingöngu fyrir Rio Tinto Alcan á Íslandi. Í flestum tilfellum er um að ræða sérhæfð störf, sem hefðu ekki ella orðið til.

Ýmis starfsemi hefur vaxið og dafnað hér á landi vegna uppbyggingar áliðnaðar. Nærtækast er að nefna umfangsmikla starfsemi verkfræðistofa en hlutdeild innlendra verkfræðistofa í hönnun og verkefnastjórnun við byggingu álvera hefur aukist mjög á undanförnum árum. Stafar sú þróun helst af aukinni sérfræðiþekkingu og auknu bolmagni þessara fyrirtækja til að sinna stórframkvæmdum vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem orðið hefur í áliðnaði og tengdum orkuframkvæmdum.

Einnig hafa fjölmörg sérhæfð þjónustufyrirtæki sprottið upp í tengslum við áliðnað. Dæmi eru um að slík fyrirtæki séu farin að flytja út þjónustu sína og þekkingu. Tilkoma áliðnaðar hefur stuðlað að fjölbreyttari uppbyggingu í atvinnulífi Íslendinga á undanförnum áratugum. Til marks um það má nefna Álklasann sem stofnaður var formlega vorið 2015 með aðkomu tuga fyrirtækja og stofnana.

Sjá einnig