Afurðirnar

Ál er haft til mjög fjölbreytilegra nota nú á tímum en það er mest notaði málmurinn að frátöldu járni og málmblöndum byggðum á því. Árið 2013 fór heimsframleiðslan í fyrsta skipti yfir 50 milljónir tonna, en hún var um 40 milljónir tonna fjórum árum áður.

Um fjórðungur álnotkunar heimsins er í flutninga- og farartækjaiðnaði. Áhersla er lögð á að minnka þyngd farartækja til að draga úr orkunotkun og mengun. Í þessu tilliti eru yfirburðir álsins miklir. Það er notað í burðargrindur, klæðningar, raflagnir og rafkerfi í flugvélum. Í fólksbifreiðum og vöruflutningabifreiðum má nota það í grindur, yfirbyggingar, blokkir, stimpla, lok, stuðara, hjól o.s.frv. Notkun áls í lestum, lestarvögnum, fólksflutningabílum og bátum fer stöðugt vaxandi.

Um fjórðungur áls fer til framleiðslu á neytendavörum svo sem húsgögnum, húsbúnaði, heimilistækjum o.s.frv. Flestir nota ál oft á dag án þess að taka alltaf eftir því, enda er það m.a. notað í geisladiska, spegla, reiðhjól, potta og pönnur. Ál er einnig notað í yfirbyggingar skipa, þyrlupalla, landgöngubrýr, handrið, brunaveggi og fleira á hafi úti. Þá er súrál, eitt meginhráefnið við álframleiðslu, notað í ýmsar iðnaðar- og neytendavörur; t.d. steinull, tannkrem og skósvertu.

Um fimmtungur álnotkunar er í byggingariðnaði. Brýr, gríðarstór þök, hvolf yfir markaði og íþróttahallir eru dæmi um mannvirki þar sem ál er notað. Ál er heppilegur kostur í þök, klæðningar, stiga, handrið, gluggakarma, hurðir og klæðningar innanhúss.

Um 20% áls fer til umbúðaiðnaðar en vegna eiginleika sinna á álið fáa keppinauta þegar kemur að umbúðum um mat, drykk og lyf. Umbúðir úr áli eru fyrirferðarlitlar, léttar og sterkar, þær draga úr orkunotkun og kostnaði við dreifingu og endurheimtingu sökum þess að flutningskostnaður er lítill.

Um 10% af álnotkuninni tengist raforkunotkun en raflínur úr áli hafa nær alveg tekið við af koparlínum. Ál er einnig að koma í stað kopars í spennubreytum. Það er líka notað í ýmsan búnað í fjarskiptum og raftækni og ál má nota í skrifstofubúnað, öryggiskassa, gervihnattadiska, húsbúnað, sjónvarpstæki og hljómflutningstæki svo eitthvað sé nefnt.

Sjá einnig