Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls, Guðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála og …
Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls, Guðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra.

Alcoa Fjarðaál vottað samkvæmt jafnlaunastaðli

Alcoa Fjarðaál hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt staðli IST 85:2012. Staðallinn er unninn af hópi íslenskra sérfræðinga með það að markmiði að framfylgja lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í lögunum er skýrt kveðið á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Fjarðaál er fyrsta stórfyrirtækið sem hlýtur vottun á jafnlaunastaðli velferðarráðuneytisins og af því tilefni heimsótti félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, fyrirtækið og veitti því viðurkenningu á vottuninni. Hann lét þau orð falla að það væri til fyrirmyndar að sjá hvernig Fjarðaál setur jafnréttismál á oddinn og tekur þátt í að brjóta á bak aftur staðalímyndir á vinnumarkaði.

Alcoa Fjarðaál er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins með 550 starfsmenn og um 350 verktaka. Hlutfall kvenna er 25% sem er það hæsta sem þekkist innan álvera Alcoa. Guðný Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála sagði á fundinum með félags- og jafnréttismálaráðherra að hjá Fjarðaáli sé litið á innleiðingu jafnlaunavottunar sömu augum og innleiðingu annarra gæða- og stjórnkerfa sem stuðla að því að gera vinnustaðinn betri og eftirsóknarverðari. Jafnlaunavottun er staðfesting á því að hjá fyrirtækinu er til staðar starfaflokkun þar sem störf hafa verið verðmetin út frá mikilvægum þáttum.

Guðný sagði einnig: „Það hlýtur að vera traustvekjandi fyrir starfsfólk að fá staðfestingu á því að launaákvarðanir eru ekki handahófskenndar heldur ígrundaðar og rekjanlegar og launakerfið sannreynt með þátttöku í kjarakönnun. Úttektir á jafnlaunastaðlinum munu fara reglulega fram ásamt launagreiningu og úrbætur eru gerðar greinist frávik frá staðli, líkt og í öðrum úttektum sem gerðar eru hjá fyrirtækinu.“

Sjá einnig