Álframleiðsla fyrir austan frá 2007

Álframleiðsla fyrir austan frá 2007

Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði fagnar tíu ára afmæli sínu í dag en álverið hóf rekstur árið 2007. Það er stærsta álver hér á landi og þar starfa 550 manns, þar af eru 25% konur sem hæsta hlutfall kvenna sem þekkist innan álvera Alcoa. Fyrirtækið
bætti við sig 50 starfsmönnum í fyrra vegna nýs vaktafyrirkomulags. Að auki starfa um 350 verktakar hjá fyrirtækinu og því starfa um 900 manns í álverinu að afleiddum störfum ótöldum sem skapast hafa við þjónustu við álverið á Austfjörðum. Þetta kemur fram í úttekt Magnúsar Heimis Jónassonar í Morgunblaðinu.  

Sérfræðingar í áli fyrir austan

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, segir í samtali við Morgunblaðið að mikil þekking við rekstur álvera hafi orðið til fyrir austan og hefur verið þjálfaður upp mikill fjöldi íslenskra sérfræðinga í rekstri álvera.

Starfsmenn frá Fjarðaáli hafa meðal annars verið fengnir til að taka þátt í gangsetningu álversins í Maaden í Sádi-Arabíu ásamt því að hafa verið sendir út til að aðstoða við endurræsingu á álveri Alcoa í Portland í Ástralíu. Álið sem álverið flytur út árlega samsvarar ríflega 10% af vergri landsframleiðslu. Álverið er með
starfsleyfi fyrir 360 þúsund tonnum á ári og hefur það framleitt um 350 þúsund tonn af áli árlega frá upphafi.

Dagmar segir að eftirspurn eftir áli á erlendum mörkuðum hafi aukist um 5 til 6% á ári á á undanförnum árum og megi rekja það til aukinnar álnotkunar í bílaframleiðslu en þar er ál notað til að létta farartæki og draga þannig úr eldsneytiseyðslu þeirra.

Sterk króna hefur áhrif

Viðskipti með ál fer fram í dollurum og fer eftir markaðsverði London Metal Exchange (LME) en þrátt fyrir það hefur gengi krónunnar áhrif á fyrirtækið með ýmsum hætti. „Sterk króna veikir samkeppnishæfni íslenskra álvera þar sem innlendur kostnaður hefur hækkað,“ segir Dagmar. „Við framleiðum vöru úr hrááli, svokallaða hleifa en einnig virðisaukandi vöru þar sem búið er að vinna álið meira, svo sem í vír og málmblendisstangir. Vírarnir eru notaðir í háspennukapla en stangirnar eru mikið notaðar í bílaframleiðslu í Evrópu.“

Á síðasta ári var útflutningsverðmæti fyrirtækisins 71 milljarður króna og samkvæmt upplýsingum frá Alcoa urðu um 39% af þeim tekjum eftir í landinu, eða um 28
milljarðar króna, í formi opinberra gjalda, launa og innkaupa frá innlendum birgjum á vöru og þjónustu. Árið 2015 var útflutningsverðmætið um 92 milljarðar og segir Dagmar að þar hafi markaðsverð á áli mest að segja.

Afstýrðu stórslysi árið 2010

Að sögn Dagmarar hefur reksturinn gengið vel en stöðugt sé verið að bregðast við aðstæðum í rekstri og að leysa vandamál. Hún minnist þess þegar eldur kom upp í álverinu 2010.

„Í desember árið 2010 kom upp erfið staða þegar einn af afriðlunum okkar brann og þá sýndi það sig hvað það skiptir miklu máli að vera með öflug varnarlög. Eldurinn breiddist ekki út vegna varnarlaganna og góðrar vinnu slökkviliðs en við misstum
straum af kerlínunni í þrjá klukkutíma. Þá stóð tæpt að við myndum missa skálann, það er að segja að álið myndi frjósa í kerjunum og við hefðum þurft að endurræsa allt á nýjan leik. Betur fór en á horfðist og við náðum að bjarga kerlínunni þrátt fyrir þetta langa rafmagnsleysi. Það var unnið mikið afrek af okkar starfsmönnum að halda rekstrinum gangandi við erfiðar aðstæður.“

Hátíðardagskrá verður í álveri Alcoa Fjarðaáls í dag þar sem meðal annars verður boðið upp á tónleika og skoðunarferðir um álverið.


Sjá einnig