Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls gagnrýnir kerfi upprunaábyrgða raforku enda sé verið að selja …
Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls gagnrýnir kerfi upprunaábyrgða raforku enda sé verið að selja úr landi það samkeppnisforskot sem felist í grænni orku.

Áskoranir og tækifæri sem fylgja öflugum orkuiðnaði

„Grundvöllur samkeppnishæfni íslensks orkuiðnaðar felst í frjálsri samkeppni á orkumarkaði,“ segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls í áramótauppgjöri Morgunblaðsins. 

„Þar má ýmislegt betur fara. Eitt dæmi um það er flutningskostnaður raforku, sem er hærri hér á landi en í Noregi, þó að aðstæður séu sambærilegar. Það er löngu tímabært að endurskoða það kerfi og aðskilja eignarhald Landsvirkjunar og Landsnets eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á. Enda sér hver maður hversu mikilvægt það er að orkufyrirtækin veiti Landsneti virkt aðhald þegar ákvarðanir eru teknar um uppbyggingu flutningskerfisins.“

Pétur segir fagnaðarefni að arðurinn af orkuauðlindinni renni í þjóðarsjóð, sem hugsaður er til að mæta stóráföllum í efnahagslífinu. „En Samál hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þau gjöld sem stóriðjan greiðir fyrir losunarheimildir innan ETS, viðskiptakerfis ESB, renni til verkefna á sviðum loftslagsmála hér á landi. Með svo öflugan orkuiðnað og sína grænu orku eiga Íslendingar að geta tekið frumkvæði í rannsóknum og þróun á þessu sviði á heimsvísu.

Um leið er margt við kerfi upprunaábyrgða raforku að athuga enda er verið að selja úr landi það samkeppnisforskot sem felst í grænni orku.“

Ekki er hægt að tala um áskoranir framtíðarinnar án þess að nefna fjórðu iðnbyltinguna, að sögn Péturs. „Til þess að Ísland geti sótt fram í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar er mikilvægt að ungu fólki séu sköpuð skilyrði til að mennta sig á þeim sviðum. Það hefur skort á að markaðssetja iðnnám gagnvart ungu fólki, enda býður námið upp á fjölbreytt atvinnutækifæri, auk þess að efla tækniþekkingu – það er allt að verða stafrænt í þessum heimi.“


Sjá einnig