Bandaríkin setja verndartolla á vörur úr áli og stáli

Í kvöldfréttum RÚV var fjallað um þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að setja verndartolla á vörur úr áli og stáli frá Evrópusambandinu, Kanada og Mexíkó. Rætt var við Pétur Blöndal framkvæmdastjóra Samáls. Hér má sjá fréttina í upphafi kvöldfréttatímans. 

Fram kom í frétt RÚV að ákvörðunin hefði vakið hörð viðbrögð. Ragnhildur Thorlacius fréttamaður RÚV spurði Pétur hvort fólk hefði áhyggjur af þessu í íslenskum áliðnaði og hvort þetta hefði áhrif hér heima. 

„Þetta hefur ekki teljandi áhrif á íslenskan útflutning á áli,“ svaraði Pétur. „Það er bara óverulegt magn sem að við flytjum til Bandaríkjanna.“

- Þá erum við aðallega að flytja til Evrópu?

„Já, Evrópumarkaður er okkar megin markaður. Ef við horfum til lengri tíma, þá getur þetta valdið óvissu á mörkuðum, t.d. hvort ríki sem eru að flytja inn ál til Bandaríkjanna, hvort það ál leiti í annan farveg og fari þá á Evrópumarkað og hafi áhrif á þann markað. Á móti má kannski benda á að það eru 3 til 7% tollar á innflutt ál til Evrópusambandsins þannig að tollar á ál eru kannski ekki alveg ný uppfinning.“

- Þetta er í raun og veru kannski ekkert sem að þið hafið verið að búa ykkur undir. Það hefur nú legið í loftinu í dálítinn tíma að þetta gæti gerst?

„Já ef maður horfir á aðdraganda málsins, þá er rótin sú að það hefur verið umframframleiðsla í Kína í töluverðan tíma,“ svaraði Pétur. „Það þýðir sem sagt að Kína framleiðir yfir helming af öllu áli sem framleitt er í heiminum. Það hafa verið að safnast upp birgðir þar og það hefur valdið ríkjum áhyggjum, m.a. með tilliti til þess að þau framleiða sitt ál að mestu með kolum. Almennt er það orkuvinnslan sem losar mest við álframleiðslu og þess vegna er kolefnisfótsporið þar mjög óhagstætt ef við t.d. miðum við lönd eins og Kanada, Noreg eða Ísland.“ 

Sjá einnig