Fjölmennt var í haustferð Álklasans. Hér er hópurinn í Sjóböðunum við Húsavík.
Fjölmennt var í haustferð Álklasans. Hér er hópurinn í Sjóböðunum við Húsavík.

Becromal og PCC heimsótt í haustferð Álklasans

Fullbókað var í árlega ferð Álklasans sem að þessu sinni var farin til Húsavíkur og Akureyrar. Yfir 50 þátttakendur nutu gestrisni fyrirtækjanna PCC og Becromal, hlýddu á fróðleik um fyrirtækin og skoðuðu verksmiðjurnar.

Á Húsavík hófst yfirferðin með erindi Kristjáns Þórs Magnússonar sveitarstjóra Norðurþings, sem dró fram hversu mikilvæg uppbygging kísilversins PCC hefði verið fyrir sveitarfélagið. Þá sagði Valur Knútsson yfirverkefnastjóri Þeystarreykjavirkjunar frá vel heppnaðri uppbyggingu Landsvirkjunar á virkjuninni og loks fór Erlingur Jónasson öryggis-, umhverfis- og gæðastjóri PCC yfir uppbyggingarfasa kísilversins sem stendur enn yfir og þær áskoranir sem fylgja svona stórri framkvæmd.

Ekið var í gegnum nýju göngin sem liggja að hafnarsvæði Húsavíkur og Óskar Borg sérfræðingur hjá Eimskipum sagði frá metnaðarfullri uppbyggingu á búnaði og aðstöðu á hafnarsvæðinu í tengslum við komu PCC. Heimsókninni á Húsavík lauk með hádegisverði og skoðunarferð um nýopnuð og stórglæsileg Sjóböð á Húsavíkurhöfða.

Á Akureyri tóku Rúnar Sigurpálsson fjármálastjóri Becromal og Florian Delpoux rekstrarstjóri á móti hópnum og kynntu framleiðsluferli Becromal og sögu fyrirtækisins auk þess sem þeir greindu frá vel heppnuðum umbótaverkefnum tengdum umhverfismálum. Þá var leiðsögn um verksmiðjuna auk þess sem samstarfsaðili þeirra Rafeyri rakti sögu sína og hvernig fyrirtækið hefur vaxið í tengslum við þjónustu við Becromal. 

Í lok ferðar borðaði hópurinn saman á Strikinu og átti góða samverustund, enda snýst klasasamstarf ekki síst um það að skapa tengsl, - það er þá sem hugmyndir fæðast. 


Sjá einnig