Bein losun Alcoa minnkaði um 3 milljónir tonna 2014

Sjálfbærniskýrsla Alcoa 2015 er komin út í rafrænu formi og hefur hún að geyma upplýsingar varðandi efnahags-, umhverfis- og samfélagsmál fyrirtækisins á sl. ári.

Klaus Kleinfeld, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, segir meðal annars í ávarpi sínu með skýrslunni að á árinu 2014 hafi verið gerðar ýmsar breytingar í rekstri fyrirtækisins sem séu í takt við markmið um sjálfbæra þróun. Til að mynda hefur Alcoa unnið í náinni samvinnu við Ford um hönnun nýja F-150 pallbílsins sem var valinn bíll ársins 2014 í Bandaríkjunum. Boddíhlutum úr stáli var skipt út fyrir ál sem gerir að verkum að bíllinn er 350 kg léttari en eldri árgerð, mun liprari í akstri og eyðir minna eldsneyti. Alcoa hefur einnig unnið að byltingakenndri tækninýjung, Micromill, en sú tækni gerir fyrirtækinu kleift að framleiða bílhluti sem eru tvöfalt meðfærilegri í mótun og a.m.k. 30% léttari en samsvarandi hlutir úr stáli.
 
„Hvað flug- og geimiðnað varðar hefur Alcoa haldið áfram að vinna lausnir sem hafa valdið straumhvörfum allt frá fyrsta flugi Kitty Hawk,“ segir Kleinfeld. Hann bendir á að nýsköpun Alcoa fyrir þennan iðnað skipti miku máli, þar sem nýr flugfloti nær 20% betri eldsneytisnýtingu en sá eldri og eldsneytisbruni minnki um 15%.
 
Kleinfeld segir: „Jafnframt því að tryggja viðskiptavinum okkar og samfélaginu ábata með því að gera ýmsa hluti léttari erum við ákveðin í því að halda áfram að draga úr umhverfisáhrifum okkar eigin reksturs.“ Með það markmið í huga var gripið til aðgerða á árinu 2014 til þess að auka skilvirkni búnaðar ásamt því að loka tímabundið eða til langframa þeim verksmiðjum sem voru ekki með nógu fullkominn búnað, meðal annars með tilliti til umhverfismála. Vegna þessara aðgerða hefur bein losun frá verksmiðjum Alcoa minnkað um 3 milljónir tonna á árinu 2014.
 
Þá bendir Kleinfeld á vegna framfara í tækni hefur magn gróðurhúsalofttegunda fyrir hvert framleitt tonn af framleiddu áli hjá Alcoa minnkað um 25,9% frá árinu 2005.
 
Sjálfbær þróun snýst ekki aðeins um umhverfis- og efnahagsmál. Kleinfeld tekur fram að öryggi, heilsa og velferð starfsmanna Alcoa skipti miku máli. Því ber að fagna að starfsmenn Alcoa um allan heim, sem nú eru um 59.000, og einnig fjöldi verktaka sem vinna fyrir Alcoa, unnu í 811 daga samfleytt án þess að nokkurt banaslys hafi orðið. Því var miður að starfsmaður verktaka í Point Comfort í Texas lést vegna vinnuslyss á árinu. Sá sorglegi atburður verður starfsmönnum Alcoa til áminningar að hugsa á hverjum degi um hvernig hægt er að draga úr slysahættu.
 
Á árinu 2014 skipaði Alcoa enn og aftur öndvegissæti í sjálfbærnivísitölu Dow Jones og var valið besta álfyrirtækið á heimslistanum.
 
Í lok ávarpsins segir Kleinfeld : „Framtíðarsýn okkar er „Alcoa – framar með hverri kynslóð“ og þessi skýrsla leggur áherslu á þá skuldbindingu okkar að halda áfram að skila hverri kynslóð feti framar með sjálfbærni að leiðarljósi.“
 
Samantekt skýrslunnar, „Sustainability Highlights“ (einungis fáanleg á ensku) er 8 blaðsíður þar sem drepið er á því helsta sem Alcoa gerði á árinu 2014 til þess að bæta hag fyrirtækisins, auka öryggi starfsmanna, draga úr umhverfisáhrifum o.fl. Þar er einnig að finna lista yfir helstu mál er varða hagsmunaaðila í nágrenni starfsstöðva fyrirtækisins og hvernig var brugðist við málum sem komu upp, m.a. auknu magni flúoríðs í grasi í Reyðarfirði.
 
Smelltu hér til þess að skoða/hlaða niður skýrslunni „Sustainability Highlights“ (PDF 4,77 Mb).
 
Á vefsíðu Alcoa Inc. er síðan að finna ítarlegri upplýsingar og sjálfbærniskýrsluna í heild.   

Sjá einnig