Breytt umfang straumhækkunar

Álverið í Straumsvík mun að sinni stefna að því að auka framleiðslugetu úr 190 þúsund tonnum á ári í u.þ.b. 205 þúsund tonn, eða um 8% í stað 20% eins og upphaflega var stefnt að með fjárfestingarverkefni því sem nú stendur yfir.

Viðamiklar uppfærslur á straumleiðurum í kerskálum hafa reynst vandkvæðum bundnar bæði í tæknilegu og öryggislegu tilliti. Athuganir sem ráðist var í af þessum sökum leiddu í ljós að ná má fram umtalsverðum hluta framleiðsluaukningarinnar án þess að breyta straumleiðurunum. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu er ekki talið fýsilegt að verja meiri fjármunum en þegar hefur verið gert til að ná fram þeirri framleiðsluaukningu sem upp á vantar með þeim hætti sem til stóð.

Leitað verður leiða til að ná henni fram með öðrum hætti en ljóst er að það verður lengri tíma verkefni.

Ákvörðun þessi hefur ekki áhrif á aðra meginþætti fjárfestingarverkefnisins í Straumsvík, þ.e. að skipta að fullu yfir í framleiðslu á stöngum í stað barra og að auka afkastagetu lofthreinsivirkja. Rétt er að leggja áherslu á að í dag vinna um 150 manns að þeim verkefnum sem haldið verður áfram með.

 

Straumsvíkurverkefnið í hnotskurn:

Um er að ræða þrjú verkefni:

1. Rekstraröryggi

- Viðamiklar breytingar í aðveitustöð til að tryggja að bilun í einum spenni taki ekki út heilan kerskála

- Þessum þætti er lokið

2. Ný framleiðsluafurð

- Framleiða stangir í stað barra

- Þetta verk er rúmlega hálfnað og verður klárað

- Framleiðsla á stöngum hófst sl. sumar

- Alfarið skipt yfir í stangir á næsta ári

3. Straumhækkun, þ.e. framleiðsluaukning

- Markmiðið var að auka ársframleiðslu úr 190 þúsund tonnum í tæp 230, eða um 20%, með breytingum á straumleiðurum

- Nú er stefnt á u.þ.b. 205 þúsund tonn, eða um 8%

- Þessu tengist einnig efling lofthreinsibúnaðar; það er viðamikið verkefni sem stendur yfir og verður klárað


Efnahagsleg áhrif:

- Langstærsta fjárfestingarverkefni á Íslandi frá hruni

- Áætlun hljóðaði upp á 57 milljarða; kostnaður verður vart undir því þrátt fyrir að ekki verði farið í straumleiðarabreytingar

- Nú þegar hefur verið varið yfir 50 milljörðum í ofangreind verkefni

- Hefur nú þegar skapað yfir 600 ársverk, eins og áætlað var

- Í dag vinna um 150 manns, þ.e. verktakar og verkefnisstjórn, að þeim verkefnum sem haldið verður áfram með.

Sjá einnig