Í áliðnaði stendur það upp úr að álverð hækkaði umtalsvert á heimsmarkaði og sömuleiðis verð á aðfön…
Í áliðnaði stendur það upp úr að álverð hækkaði umtalsvert á heimsmarkaði og sömuleiðis verð á aðföngum, segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls í viðtali í áramótablaði Viðskiptablaðsins.

Bylgjuhreyfing í samfélaginu um að draga úr sóun og auka endurvinnslu

Í áramótablaði Viðskiptablaðsins var viðtal við Pétur Blöndal framkvæmdastjóra Samáls, þar sem litið var til ársins sem er að líða og eins rýnt í framtíðina. 

Hvernig var árið 2017 þegar á heildina er litið?
Í áliðnaði stendur það upp úr að álverð hækkaði umtalsvert á heimsmarkaði og sömuleiðis verð á aðföngum. Engu að síður eru áhrifin jákvæð á rekstur álvera og einnig orkufyrirtækja hér á landi, eins og ráða má af afkomutilkynningum þeirra. Enda er ánægjulegt að í nýjum stjórnarsáttmála sé talað um stofnun þjóðarsjóðs um arðinn af orkuauðlindinni, en nýting hennar hefur byggst upp samhliða stóriðju hér á landi og skilað orku á samkeppnishæfu verði til fyrirtækja og lægsta verði sem þekkist á byggðu bóli til almennings.


Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Átakið um endurvinnslu áls í sprittkertum er mér efst í huga þessa dagana. Það stendur yfir í desember og janúar og er afar ánægjulegt hversu vel það fór af stað. Markmiðið er að vekja almenning til vitundar um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu áls sem til fellur á heimilum og í fyrirtækjum og má skila álinu á hátt í 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar og í grænar tunnur. Þessar góðu undirtektir sýna hversu sterk bylgjuhreyfing er í samfélaginu um að draga úr sóun og auka endurvinnslu.

Hverjar eru væntingar þínar til næsta árs?
Ég ber miklar væntingar til nýrrar ríkisstjórnar, þar sem brúuð hefur verið gjáin milli vinstri og hægri eftir átakatíma liðinna ára.

Hver eru mikilvægustu verkefni nýrrar ríkisstjórnar?
Kjarasamningar þar sem við fylgjum fordæmi Norðurlanda með hóflegum hækkunum og leggjum þannig grunn að vaxandi kaupmætti, lágri verðbólgu, lágum vöxtum og stöðugu gengi. Það kemur sér best fyrir alla, ekki síst unga fólkið sem er að koma sér þaki yfir höfuðið.


Sjá einnig