Endurheimta 60 hektara votlendi í Reyðarfirði

Endurheimta 60 hektara votlendi í Reyðarfirði

Landgræðslan, Fjarðabyggð og Alcoa ætla í sameiningu að láta moka ofan í skurði á Hólmum, utan við álverið í Reyðarfirði. Tilgangurinn er að endurheimta 60 hektara votlendi með plöntu- og fuglalífi og stöðva útstreymi gróðurhúsalofttegunda úr þornuðum mýrum. Hér  má sjá umfjöllun RÚV. 
 

Votlendi geyma mikið af kolefnisforða jarðar en hafa víða verið þurrkuð upp með skurðum til að rækta tún. Það var einmitt gert á Hólmum í Reyðarfirði á sínum tíma. Fyrir vikið losar jarðvegurinn gróðurhúsalofttegundir og gæti hver hektari losað um 20 tonn á ári. Samfélagssjóður Alcoa ákvað að styrkja Landgræðsluna og Fjarðabyggð um 15 milljónir króna til að endurheimta votlendi á Hólmum. Það verður gert með því að fylla upp í skurði en náið verður fylgst með svæðinu til að meta árangurinn. „Það eru lagðir út vöktunarreitir, þar sem er fylgst með breytingum á vatnsstöðu, það eru vatnshæðarmælar. Svo komum við með reglulegu millibili og við punktamælum losun á koldíoxíði og metani,“ segir Sunna Áskelsdóttir, verkefnisstjóri endurheimtar votlendis hjá Landgræðslunni.

Fullyrt er að meirihluti, og jafnvel allt að 70% losunar af mannavöldum hér á landi komi úr framræstu votlendi. Nýstofnaður Votlendissjóður býður fyrirtækjum að taka þátt í endurheimt en Landgræðslan sér um framkvæmdina. „Við stoppum rotnunina og losun á koltvísýringi um leið og við hækkum vatnsstöðuna og þetta er aðgerð sem skilar árangri strax. En þegar við erum að tala almennt um ræktun eins og landgræðslu eða skógrækt þá tekur nokkurn tíma fyrir plönturnar að ná það mikilli bindingu að það fari að skila. En allar þessar aðgerðir eru nauðsynlegar og við þurfum á því að halda að beita öllum aðgerðum sem við getum í loftslagsmálum. Vandinn er það stór,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

Upplýsingar um endurheimt votlendis og nýjan Votlendissjóð má finna vefnum www.votlendi.is

Sjá einnig