Erindi Rannveigar Rist á ráðstefnu um samfélagsábyrgð

Erindi Rannveigar Rist á ráðstefnu um samfélagsábyrgð

Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð, og Samtök atvinnulífsins, stóðu þann 23. janúar fyrir ráðstefnunni: „Fyrirtæki og samfélagið - sameiginlegur ávinningur.“

Hátt í 200 manns sóttu ráðstefnuna og hlýddu á forstjóra nokkurra fyrirtækja ræða um samfélagsábyrgð frá sínum sjónarhóli.

Rio Tinto Alcan á Íslandi er eitt þeirra fyrirtækja sem stóðu að stofnun Festu, sem hefur það að markmiði að efla vitund og umræðu um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Rannveig Rist var meðal frummælenda á fundinum og fer erindi hennar hér á eftir:

Góðir fundarmenn

Til eru fleiri en ein skilgreining á því hvað felist í hugtakinu um „samfélagsábyrgð fyrirtækja".

Ennþá virðast margir halda að hún gangi aðallega út á að dreifa styrkjum til samfélagsins.

En fyrirtækið sem veitir hæstu samfélagsstyrkina er ekki endilega ábyrgasta fyrirtækið; það liggur eiginlega í augum uppi.

Nei, hugtakinu er ætlað að ná utan um þá viðleitni fyrirtækja að sýna ábyrgð í öllum þáttum starfseminnar.

Fara eftir lögum og reglum, að sjálfsögðu.

En líka huga að siðferðilegum spurningum. Að stjórnendur og starfsmenn spyrji sig: „Er ég sátt við þetta? Er þetta siðlegt og rétt? Get ég litið stolt um öxl?“

Ég tel að það sé okkur beinlínis lífsnauðsynlegt að starfa í sem mestri sátt við samfélagið.

Við fáum ekki að starfa til lengdar í ófriði.

Við fáum sannarlega ekki að vaxa í ófriði.

Og það vill enginn starfa hjá fyrirtæki sem hann getur ekki verið stoltur af - í það minnsta ekki það fólk sem við viljum hafa í vinnu.

Til að stuðla að því að sátt ríki um starfsemina þarf að huga að mörgu:

- Það þarf að meta hvaða áhrif starfsemi fyrirtækisins hefur á helstu hagsmunaaðila og umhverfið

- Það þarf að skoða hvað skiptir okkur sjálf mestu máli og hvað skiptir hagsmunaaðila okkar mestu máli

- Og það þarf að meta hvar við stöndum okkur vel og hvar við getum bætt okkur

Mig langar að nefna nokkur dæmi um áherslur sem við höfum lagt í Straumsvík.

Efst á blaði eru öryggismál starfsmanna. Það er alls ekki sjálfgefið að hundruð starfsmanna og verktaka í álveri fari allir heilir heim að loknum hverjum einasta vinnudegi. Ég held að það sé óhætt að segja að ISAL hafi frá upphafi verið framarlega í öryggismálum á Íslandi, en samt eru ekki mörg ár síðan alvarleg slys voru þar vikulegur viðburður. Þessu hefur okkur tekist að breyta með miklu átaki sem lýkur aldrei, heldur lifir sem snar þáttur í daglegum störfum hvers einasta starfsmanns.

Heilbrigði starfsmanna er líka forgangsmál og í því sambandi erum við sífellt að gera meiri kröfur um að hafa ítrustu varúðarsjónarmið að leiðarljósi.

Veigamestu umhverfisáhrif okkar eru losun gróðurhúsalofttegunda. Frá árinu 1990, sem er viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar, hefur okkur tekist, með markvissum aðgerðum, að minnka losunina á hvert framleitt tonn af áli um 75%.

Frá verksmiðjunni berst einnig flúor. Það er stefna okkar að vera vel innan þeirra marka sem okkur eru sett og það hefur jafnan tekist, en við ætlum okkur að gera enn betur með bættum lofthreinsibúnaði sem nú er verið að setja upp og kostar öðru hvorum megin við tvo milljarða króna.

Við höfum reynt að hámarka efnahagslegan ávinning af starfsemi okkar með því að beina viðskiptum til Íslands eins og kostur er.

Við erum stolt af því að hafa á sínum tíma gefið fyrirtækinu Stími tækifæri til að þróa og framleiða tækjabúnað sem við höfðum áður keypt erlendis frá. Í kjölfarið óx þetta fyrirtæki og dafnaði, og er núna hluti af VHE í Hafnarfirði. Vöruþróun VHE, sem byggir á samstarfi við álverin, ekki síst í Straumsvík, er eitt best geymda leyndarmálið hvað varðar nýsköpun á Íslandi, en fyrirtækið hefur selt þennan búnað til fjölmargra álvera víða um heiminn.

Sigurður Arnalds, fyrrverandi stjórnarformaður verkfræðistofunnar Mannvits, rifjaði nýlega upp í viðtali við Viðskiptablaðið, að þegar þriðji kerskálinn var byggður í Straumsvík 1995 var það „gallhörð stefna stjórnenda ISAL“ - eins og Sigurður orðar það - að hafa þá framkvæmd íslenska. Hann segir í viðtalinu: „Eftir að þeim framkvæmdum lauk var ljóst að íslenskir tæknimenn gætu haft umsjón með svona framkvæmdum. Þetta varð til þess að þegar farið var í byggingu Norðuráls sáu íslenskir aðilar að mestu um þá framkvæmd.“

Það má segja að þessi saga hafi endurtekið sig nú skömmu eftir hrun, þegar Rio Tinto ákvað að ráðast í 60 milljarða fjárfestingarverkefni í Straumsvík og íslensk verkfræðistofa hafði umsjón með því verki, sem fól í sér milljarða-viðskipti.

Þess má líka geta að samtök álframleiðenda - Samál - eru að kanna hvort unnt sé að koma á formlegum vettvangi fyrirtækja í álklasanum á Íslandi, sem verði jarðvegur fyrir íslensk fyrirtæki að sinna þjónustu við álverin.

Líklega þarf þó að taka fram að þessi viðleitni okkar þýðir ekki að íslensk fyrirtæki séu sjálfkrafa áskrifendur að öllum okkar viðskiptum. Oft ræður einfaldlega lægsta verð, enda er verkefni okkar að reka fyrirtækið á sem hagkvæmastan hátt. En það er ákveðin áskorun fyrir okkur að margir telja að það geti ekki talist samfélagslega ábyrgt af okkur að skipta við erlend fyrirtæki.

Jafnréttismál eru málaflokkur þar sem okkur langar til að gera enn betur. Fyrir tveimur árum ákváðum við að prófa nýja leið og settum í fyrsta sinn markmið um að tiltekið hlutfall nýráðinna starfsmanna skyldu vera konur, eða 60%. Þetta hefur því miður ekki tekist vegna þess hve fáar konur læra vélvirkjun, rafvirkjun, bifvélvirkjun. Við höfum náð markmiðinu ef iðnaðarmenn eru undanskildir, sem er í sjálfu sér ánægjulegt. En við ætlum samt ekki að leggja árar í bát hvað iðnaðarmennina varðar, þótt það sé mikil áskorun að hnika málum þar.

Við megum heldur ekki gleyma að vera dugleg að hlusta á sjónarmið hagsmunaaðila. Ekki bara fylgjast með því sem sagt er í fjölmiðlum heldur leita markvisst eftir sjónarmiðum og eiga hreinskiptið samtal.

Í haust áttum við frumkvæði að fundum með á þriðja tug hagsmunaaðila, og spurðum þá hvað við gætum gert betur. Þarna komu fram ýmis gagnleg sjónarmið en flestir lögðu áherslu á mikilvægi þess að hafa greiðan aðgang að sem mestum og bestum upplýsingum.

Við höfum í nokkur ár gefið út Sjálfbærniskýrslu þar sem sýnd er frammistaðan á fjölmörgum mælikvörðum sem snerta heilbrigðis-, öryggis- og umhverfismál og einnig efnahagslega þætti. Við höfum leitað sérstaklega eftir áliti hagsmunaaðila um það, hvaða upplýsingar eigi að vera í skýrslunni. Og við höfum að sjálfsögðu ekki hikað við að birta þar upplýsingar um árangur sem við erum ekki sátt við, enda teljum við að við græðum ekki á glansmyndum til lengdar.

Reynslan sýnir að það er ekki nóg að gefa þessa skýrslu út á netinu, eins og við höfum stundum látið duga. Við höfum einu sinni kynnt hana á opnum fundi og ætlum að halda áfram á þeirri braut.

Ég læt það verða lokaorðin að sinni, að ég tel að það sé lykilatriði að hlusta. Hlusta á gagnrýni ekki síður en hrós. Skapa andrúmsloft þar sem fólk hikar ekki við að segja hug sinn. Og hlusta líka grannt á eigin samvisku.

Ég þakka Festu fyrir öflugt starf við að vekja umræðu um þessi mál í samfélaginu og gefa okkur tækifæri til að læra hvert af öðru.

Sjá einnig