Fá milljarð í tekjur fyrir að hanna álver Norsk Hydro

Verkfræðileg hönnun nýs álvers Norsk Hydro, sem Norðmenn segja að verði það umhverfisvænasta í heimi, er í höndum þriggja íslenskra verkfræðistofa og skilar einum milljarði króna í gjaldeyristekjur til Íslands, að því er fram kemur í frétt Vísis fyrr á þessu ári. 

Álver Norsk Hydro er á Karmöy skammt frá Haugasundi. Áður hafði verið grein frá því frá þeirri ákvörðun fyrirtækisins í fréttum á Stöð 2 að byggja við hlið þess nýtt tilraunaálver, sem þarf bæði minni raforku og mengar minna en önnur álver. Erna Solberg forsætisráðherra var viðstödd þegar þessi 65 milljarða króna fjárfesting var kynnt enda segja menn í Noregi að þetta verði kannski stærsta framlag Norðmanna til umhverfismála heimsins til þessa. 

Í fréttinni á Vísi segir:

En það er íslensk hlið á þessu máli. Í turni við Urðarhvarf í Kópavogi eru tugir íslenskra verk- og tæknifræðinga að hanna norska álverið. Þeir koma frá þremur verkfræðistofum; Mannviti, Verkís og HRV. Verkefninu fylgja slík viðskiptaleyndarmál að á sumum vinnusvæðum var okkur ekki leyfð myndataka.

„Við sjáum um verkfræðihönnun og við sjáum um alla stjórnun og innkaup og byggingarstjórnun á svæðinu, öll öryggismál. Þannig að þetta er mun umfangsmeira en bara verkfræðihönnun,” segir Skapti Valsson, forstjóri HRV. 

Svo viðamikið er verkefnið að hópurinn, sem kemur að því, fyllir heila vinnuálmu, alls um þrjátíu manns, en að jafnaði um tuttugu manns yfir tveggja til þriggja ára tímabil, að sögn Skapta. En hvað skapar verkefnið miklar tekjur á Íslandi? 

„Þetta gæti verið af stærðargráðunni milljarður,” svarar forstjóri HRV. Og menn eru stoltir af því að Norsk Hydro skyldi fela Íslendingum verkefnið. 

„Við erum stoltir af okkar framlagi, það er ekki spurning. Við erum hérna með gríðarlega reyndan og góðan hóp af fólki og margir búnir að vera í tuttugu ár eingöngu í álversverkefnum.” 

Og ekki bara hérlendis, margir starfsmannanna hönnuðu einnig álver í Svíþjóð. Það er hins vegar vinna fyrir álverin á Íslandi sem skapað hefur verkþekkinguna og reynsluna. 

„Þarna sannast þetta að ef það er heimamarkaður til þess að þróa einhverja vöru á, - þá er hægt að selja hana erlendis líka. Það á við um þetta,” segir Skapti Valsson.

 

 

Sjá einnig