Hið nýja virðisaukandi fyrirtæki Alcoa hlýtur nafnið Arconic

Alcoa tilkynnti í dag nafn, merki og einkunnarorð á þeim hluta fyrirtækisins sem mun í haust taka við virðisaukandi framleiðslu Alcoa. Nýja fyrirtækið heitir Arconic og einkunnarorð þess verða nýsköpun og verkfræðileg hönnun. Áfram verður unnið að skiptingu Alcoa í tvö sjálfstæð fyrirtaki á hlutabréfamarkaði. Hér má lesa frétt á heimasíðu Alcoa Fjarðaáls og skoða ný kennimerki Alcoa og Arconic.

Nýja nafnið, Arconic, dregur saman hefðbundinn grunn Alcoa og nýsköpun framtíðarinnar. Bókstafurinn A kemur úr nafni Alcoa og „Arc“ táknar hringboga framfara og áframhaldandi þróun í þágu viðskiptavina, hluthafa og samfélaga. Síðari hluti nafnsins, „-conic“ tengist enska orðinu „iconic“ sem merkir m.a. tákn og það að „vera þekktur“ enda hefur fyrirtækið í áraraðir verið þekkt fyrir að þróa einstakar verkfræðilausnir og vörur og beina stöðugt augunum að næstu byltingarkenndu nýsköpuninni.
 
„Merki Arconic stendur fyrir einstaka arfleifð okkar og þau spennandi tækifæri sem bíða okkar í framtíðinni,“ sagði Klaus Kleinfeld, forstjóri og stjórnarformaður Alcoa. „Það endurómar 127 ára sögu okkar á sviði uppfinninga og endursköpunar. Merkið endurspeglar jafnframt sýn okkar á endalaus tækifæri til nýsköpunar sem leyst geta flókin viðfangsefni á sviði verkfræði og breyta því hvernig við fljúgum, keyrum, byggjum, pökkum og virkjum orku. Merkið Arconic er einnig tákn um þá hugvitssemi sem starfsfólk okkar býr yfir og helgar sig því verkefni að finna upp, búa til og afhenda viðskiptavinum okkar framúrskarandi lausnir sem skapa grundvöll fyrir frekari árangur viðskiptavina fyrirtækisins.“
 
Á fundinum kynnti fyrirtækið jafnframt nýtt merki fyrir frumframleiðslufyrirtækið Alcoa, þar sem enn frekari áhersla er lögð á A-laga táknið þar sem uppréttur oddur þess stendur fyrir stöðuga viðleitni til að hugsa út fyrir kassann og þrá eftir auknum styrkleika. Jafnframt stendur blái liturinn áfram fyrir þeirri löngu arfleifð sem Alcoa byggir á í atvinnugreininni.
 
„Hið nýja merki Alcoa stendur fyrir umbreytt og sveigjanlegt fyrirtæki sem ekki lætur bugast við erfiðar aðstæður í rekstrarumhverfinu og hefur jafnframt getu til að nýta sér umsvifalaust ný tækifæri þegar þau gefast,“ sagði Klaus Kleinfeld. „Með kynningunni í dag nálgumst við lokatakmarkið sem er upphaf formlegrar starfsemi tveggja nýrra og leiðandi fyrirtækja, sem hvort um sig verður þess albúið að mæta krefjandi aðstæðum í framtíðinni.“
 
Bæði fyrirtækin, Arconic og Alcoa, verða með heimilisfesti í Bandaríkjunum og skráð í Kauphöllinni í New York, Arconic sem ARNC og Alcoa sem AA. Fyrirtækin verða leiðandi aðilar í iðngrein sinni á heimsvísu og bæði á lista Fortune yfir 500 stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna. Alcoa mun sinna þeirri starfsemi sem nú tilheyrir Alcoa Global Primary Products, sem eru framleiðsla á báxíti, súráli, áli, málmsteypu og orku. Arconic mun taka yfir þá starfsemi sem nú tilheyrir virðisaukandi starfsemi Alcoa, sem eru valsaðar framleiðsluvörur, margvíslegar verkfræðilausnir auk lausna fyrir alþjóðlegan samgöngu- og byggingariðnað.

Sjá einnig