Hrein orka skapar ný og áhugaverð sóknarfæri fyrir álframleiðendur

Meðal frummælenda á ráðstefnu Charge næsta þriðjudag verður Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls. Hann mun m.a. fjalla um þá möguleika sem fólgnir eru í að skapa íslensku áli sérstöðu á álmarkaði með því að hampa notkun endurnýjanlegra orkugjafa við vinnslu álsins og því hve lítið kolefnisfótspor íslenskt ál hefur. Hér má lesa viðtal sem birtist við hann í Morgunblaðinu af því tilefni. 

„Við fyrstu sýn virðist allt ál sem selt er á heimsmarkaði einfaldlega vera hrávara sem er nánast eins hvar sem er í heiminum. Ef að er gáð er samt töluverður munur á því hvernig álið er framleitt og tækifæri fólgin í því að t.d. aðgreina íslenskt ál sem vörumerki með ákveðna sérstöðu,“ segir hann. „Bæði er hægt að nota lítið sótspor til aðgreiningar frá mörgum öðrum álframleiðslulöndum, og líka hampa skilvirkri og góðri framleiðslu sem tryggir stöðugleika í gæðum vörunnar.“

Vottunarkerfi í smíðum

Ragnar segir bæði neytendur og framleiðslufyrirtæki um allan heim leggja ríka áherslu á að draga sem mest úr sótspori og ljóst hvaða stefnu álmarkaðurinn mun taka hvað þetta varðar: „Nú þegar er unnið að því að þróa alþjóðlegt vottunarkerfi fyrir uppruna áls þar sem öll virðiskeðjan er mæld til að skoða hversu mikill koltvísýringur verður til við framleiðsluna, og er sala á áli með upprunavottorði að hefjast um þessar mundir.“

Má reikna með að í framtíðinni geti hærra verð fengist fyrir ál með lítið sótspor og gæti það breytt landslagi álmarkaðarins töluvert. „Minnihluti þess áls sem framleitt er í dag verður til með notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Eru það einkum framleiðendur á stöðum eins og Íslandi, Kanada, Noregi og á ákveðnum stöðum í Suður-Ameríku sem státa af því. Í þeim heimshlutum þar sem vöxtur álframleiðslu hefur verið hvað örastur að undanförnu, s.s. í Kína og Mið-Austurlöndum, er hins vegar notuð kola- og gasorka og kolefnislosunin sex- til áttföld á við það sem við sjáum hér á landi.“

Ragnar bendir líka á að vaxandi áhersla á umhverfisvæna framleiðslu opni nýja möguleika í kynningarstarfi Norðuráls innanlands. „Fram til þessa hefur umræðan um álverin einkum einblínt á efnahagslega þætti, svo sem framlag áliðnaðarins til landsframleiðslu og fjölgunar starfa, en við höfum breytt áherslum undanfarið og munum í framtíðinni fjalla meira um hvaða hlutverk ál leikur í lífi fólks hvern einasta dag og hvernig það hjálpar til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum bæði hér á landi og erlendis. Mætti raunar halda því fram að nýting umhverfisvænna orkugjafa hér á landi til að framleiða ál til útflutnings sé eitt mikilvægasta framlag Íslands til loftslagsmála.“

Sjá einnig