Hvað er vinna í verksmiðju?

Það má stundum heyra á orðræðunni að ekki sé nógu fínt að vinna í framleiðslufyrirtækjum og er þá  oft og einatt talað um „verksmiðjur“. Það skapar hugrenningatengsl við iðnbyltinguna upp úr miðri 18. öld, en ekki tæknivædd fyrirtæki 21. aldarinnar.

Þegar ég velti þessu fyrir mér rifjuðust upp orð Pálma Kristinssonar við opnun Smáralindar. Þar sagði hann að Smáralind væri eins og yfirbyggt samfélag eða þorp.

Óhætt er að heimfæra þau orð á fjölmenn stóriðjufyrirtæki með fjölbreyttum störfum á borð við álver. Þar starfa sérfræðingar á ólíkum sviðum sem huga ekki einungis að framleiðslunni, heldur einnig gæðastjórnun, vöruþróun, efnagreiningu, öryggis- og umhverfismálum, svo fátt eitt sé talið.

Þá starfa um 600 verktakar frá öðrum fyrirtækjum á álverssvæðunum á hverjum tíma, auk þess sem álverin kaupa árlega vörur og þjónustu af yfir 700 innlendum fyrirtækjum. Í fyrra námu þau viðskipti um 24 milljörðum.

Það sem einkennir störf í álverum eru laun vel yfir meðallagi miðað við sambærileg störf á almennum vinnumarkaði, sterkt tengslanet og tækifæri til menntunar, þá er mikið lagt upp úr öryggi og faglegum vinnubrögðum – og síðast en ekki síst eru fríin góð og gefa færi á innihaldsríku fjölskyldulífi og öflugu tómstundastarfi, enda ófá dæmi um að starfsfólk álvera stundi af miklu kappi hreyfingu og  útivist.

Ef til vill er neikvætt tal um framleiðslufyrirtæki á borð við álver rótin að því að skortur er á ungu fólki í iðn- og verknám. Í grunninn eru framleiðslufyrirtækin lítið frábrugðin hvert öðru, hvort sem afurðin er kísill, álþynnur, flæðilínur fyrir sjávarútveg eða stoðtæki. Ef litið er til stoðtækjalínu Össurar gegnir ál raunar lykilhlutverki eins og vöruhönnuðir fyrirtækisins lýstu nýverið á ársfundi Samtaka álframleiðenda.

Þrenn aldamót eru síðan iðnbyltingin hófst og ótrúlegt en satt hefur tækninni fleygt fram síðan þá. Það er alveg óhætt að taka mið af því þegar talað er um störf í íslenskum iðnaði.

Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls

Sjá einnig