Hagnaður álveranna dróst saman

Íslensku álverin högnuðust um samtals 6,48 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 798 milljóna króna, á síðasta ári. Samanlagður hagnaður fyrirtækjanna dróst þá saman um 90 prósent frá árinu 2012 þegar afkoman var jákvæð um 64,5 milljónir dala. Fjallað er um afkomu álveranna í fréttaskýringu Haraldar Guðmundssonar í Fréttablaðinu.

Þar segir ennfremur:

Hagnaður Alcoa Fjarðaáls í fyrra nam 10,7 milljónum dala, samkvæmt ársreikningi sem fyrirtækið skilaði til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra í síðustu viku. Rekstur álversins, sem er í eigu bandaríska álrisans Alcoa, skilaði hins vegar 33,3 milljóna dala hagnaði árið 2012. Sölutekjur fyrirtækisins minnkuðu um 8,6 milljónir dala árið 2013 miðað við árið á undan. Rekstrarkostnaður jókst að auki um rúmar þrjár milljónir dala.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, segir afkomu fyrirtækisins háða markaðsverði á áli og bendir á þá staðreynd að álverð lækkaði talsvert á árunum 2012 og 2013.

„Álverð hefur nú hækkað og það hefur áhrif á tekjur félagsins. Vonir okkar standa til þess að þessi hækkun á markaðsverði á áli sé komin til að vera og það eru aðrar markaðsforsendur eins og lækkun á álbirgðum í heiminum sem styðja við þetta,“ segir Magnús. Hann vill ekki svara því hvort fyrirtækið geri ráð fyrir að afkoman batni á þessu ári og segir fyrirtækið almennt ekki tjá sig um niðurstöður ársreikninga.

Rekstur Norðuráls á Grundartanga skilaði 27,6 milljóna dala hagnaði árið 2013, jafnvirði 3,4 milljarða króna, eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu. Árið 2012 var álverið rekið með jákvæðri afkomu upp á 46,6 milljónir dala og dróst hagnaðurinn því saman um 41 prósent milli ára.

Einnig hefur komið fram að álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík var rekið með 31,8 milljóna dala, um 3,9 milljarða króna, tapi á síðasta ári. Tap félagsins fyrir skatta nam 41,3 milljónum dala.

Jákvæðar horfur

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda (Samáls), segir jákvæðar horfur í áliðnaði en tekur fram að hann geti ekki spáð um afkomu einstakra fyrirtækja.

„Það blasir við að afkoman í heild ræðst af álverði og það sveiflast og ef við lítum til ársins 2012 var meðalálverð hjá LME (London Metal Exchange) 2.018 dollarar á tonn og það fór síðan niður í 1.845 dollara árið 2013 og það hefur auðvitað áhrif,“ segir Pétur.

„Ef við horfum á meðalverð þessa árs þá er það 1.847 dollarar. Það ræðst af því að verðið sveiflaðist niður í upphafi ársins en það hefur styrkst mjög á seinni hluta ársins og er núna í 2.050 dollurum. Maður leyfir sér því að vona að það sé bjart fram undan í þeim efnum enda skín það í gegn í fréttum viðskiptablaða og greiningardeilda að það er mikil umframeftirspurn í Evrópu og Bandaríkjunum og það dregur úr birgðum.“

Sjá einnig