Svipmynd Markaðarins: Spenntur fyrir golfsumrinu mikla

 

„Það sem er á borðinu hjá mér núna er að fylgja eftir þessari viljayfirlýsingu um stofnun rannsóknarseturs í áli og efnisvísindum sem skrifað var undir á ársfundi Samáls fyrir stuttu síðan af iðnaðarráðherra og fulltrúum Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöðvar og Samáls,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í svipmynd sem dregin er upp af honum í Markaðnum, viðskiptaútgáfu Fréttablaðsins.

Þar segir ennfremur:


Pétur var ráðinn framkvæmdastjóri samtakanna í júlí í fyrra. Hann hafði þá gegnt starfi ritstjórnarfulltrúa á Morgunblaðinu frá 2006 og stýrt menningardeild blaðsins, auk þess að ritstýra Sunnudagsmogganum. Pétur byrjaði í blaðamennsku 1994 og vann við fagið til ársins 2000 þegar hann kláraði BA-nám í heimspeki í Háskóla Íslands. Þá hafði hann farið í skiptinám til Berlínar og lokið áföngum í þremur stærstu háskólum borgarinnar.

„Þegar ég kom heim hóf ég störf á auglýsingastofunni Gott fólk þar sem ég stýrði almannatengsladeild fyrirtækisins í tvö ár. Eftir það fór ég aftur á Moggann og kláraði MBA-nám við Háskólann í Reykjavík samhliða því,“ segir Pétur.

Hann starfaði sem forstöðumaður fjárfestatengsla og kynningarmála hjá Íslandsbanka frá 2004-2005.

„Ég hætti þar til að klára Sköpunarsögur, viðtalsbók við rithöfunda um sköpunarferlið og eftir það lá leiðin aftur á Moggann.“

Pétur er einnig stjórnarformaður Stofnunar um fjármálalæsi og í stjórn Forlagsins. Hann segist vera með ólæknandi bakteríu sem lýsi sér þannig að hann þurfi að skrifa um allt sem hendir hann í lífinu.

„Þannig að ég er með þrjár til fjórar bækur sem ég sinni í hjáverkum. Eitthvað er á vísnasviði, ein er um ferðalög og svo er eitthvað um þjóðmál. Þannig að þetta eru ólíkar bækur sem ég er að skrifa,“ segir Pétur.

Hann er giftur Önnu Sigríði Arnardóttur lögfræðingi. Þau eiga tvö börn, Ólöfu Kristrúnu, 12 ára, og Örn Óskar, sem er níu ára.

„Ég reyni að verja miklum tíma með fjölskyldunni og um leið að vera duglegur að hreyfa mig. Krakkarnir voru að komast inn í Nesklúbbinn í golfi og ég og Anna Sigga erum sömuleiðis í klúbbnum. Svo voru tengdaforeldrarnir að komast inn líka þannig að ef þetta verður ekki golfsumarið mikla þá held ég að ég selji kylfurnar mínar.“
Pétur fer á hverju ári í um þriggja vikna ferðalag með fjölskyldunni um landið og hann er augljóslega spenntur fyrir fríinu.

„Ég hlakka mikið til þess augnabliks þegar við keyrum út úr bænum um miðjan júlí og snúum ekki aftur í flóttamannabúðirnar í Reykjavík fyrr en í byrjun ágúst. Þetta er sá tími þegar maður hleður batteríin fyrir skammdegið og álagið sem fylgir íslenskum vetri.“

Hér má lesa svipmynd Markaðarins í heild.

Sjá einnig