Miðlunartillaga samþykkt í Straumsvík

Starfs­menn ál­vers Rio Tinto í Straums­vík fá 12,7% launa­hækk­un og aft­ur­virk­ar launa­hækk­an­ir í formi 490 þúsund króna ein­greiðslu. Þá munu laun hækka í sam­ræmi við SALEK-sam­komu­lagið til árs­loka 2018 og síðan um tvö pró­sent í árs­byrj­un 2019. Samn­ing­ur­inn gild­ir fram á vor 2019. Þetta seg­ir Ólaf­ur Teit­ur Guðna­son, upp­lýs­inga­full­trúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, í samtali við Mbl.is.

Miðlun­ar­til­laga rík­is­sátta­semj­ara vegna kjara­deil­unn­ar í Straums­vík var samþykkt með 61,5% at­kvæða. Kjara­deil­an snér­ist m.a. að heim­ild Rio Tinto til verk­töku. Miðlun­ar­til­lag­an fel­ur í sér heim­ild til verk­töku, en þó með þrengri skil­yrðum en stjórn­end­ur ál­vers­ins hefðu kosið.

Frétt mbl.is: Samþykktu miðlun­ar­til­lög­una

„Fyr­ir­tæk­inu er heim­ilað að bjóða út til­tekna rekstr­arþætti utan kjarn­a­starf­sem­inn­ar og leita til verk­taka við ákveðnar kring­um­stæður,“ seg­ir Ólaf­ur Teit­ur en það nær til rekst­ur mötu­neyt­is­ins, hafn­ar­starf­sem­inn­ar, ör­ygg­is­vörslu og þvotta­húss. Álverið fær þó ekki að ráða verk­taka á markaðslaun­um- eða verði, held­ur þurfa greiðslur til verk­taka að taka mið af launa­töxt­um ÍSAL.

Starfs­menn og fyr­ir­tækið telja niður­stöðuna ásætt­an­lega

Spurður hvort stjórn­end­ur Rio Tinto séu sátt­ir við niður­stöðuna svar­ar Ólaf­ur Teit­ur því til að eft­ir 40 ár­ang­urs­lausa fundi hjá rík­is­sátta­semj­ara hafi kannski verið kom­inn tími á að höggva hnút­inn og þvinga samn­ingsaðila til að kom­ast að niður­stöðu. „Bæði starfs­menn og fyr­ir­tækið telja þessa niður­stöðu ásætt­an­lega,“ seg­ir Ólaf­ur Teit­ur.

Samn­ing­ur­inn nær til 330 starfs­manna ál­vers­ins að sögn Ólafs Teits. Hann seg­ir að það verði áfram mikið for­gangs­atriði hjá ál­ver­inu að auka sam­keppn­is­hæfni fyr­ir­tæk­is­ins þannig að það geti staðið und­ir þess­um miklu launa­hækk­un­um og laun­um sem fyr­ir séu há hjá fyr­ir­tæk­inu. 

„Það er ljóst að ÍSAL er í þröngri stöðu vegna þess hve ál­verð er lágt. Fyr­ir­tækið ræður illa við að standa und­ir þess­um miklu launa­hækk­un­um sem samið hef­ur verið um á Íslandi,“ seg­ir Ólaf­ur Teit­ur og bæt­ir því við að fyr­ir­tækið hafi ekki skilað „um­tals­verðum hagnaði“ síðan 2011.

Sjá einnig