Minni hætta á að missa þann stóra

Óhætt er að segja að fluguveiðihjólin að vestan hafi slegið í gegn. Þau eru nú seld víða um heim og þekkt undir vörumerkinu Einarsson. Fyrir áramót var gengið frá samningi um sölu í Japan og samningar við fyrirtæki í Bandaríkjunum og Kanada eru langt komnir. Einnig er verið að skoða markaði í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Rússlandi.

Fram kemur á heimasíðu Alcoa að hjólin eru rennd úr álkubbum frá Alcoa í tölvustýrðum bekk. Álmelmið er svokallað Aircraft Grade 6061 T651 (solutionized, stress-relieved stretched and artificially aged), en þessa málmblöndu kynnti Alcoa fyrst árið 1935. Efnið í henni hefur sérlega mikið tæringarþol og inniheldur meðal annars magnesíum, kísil, kopar og króm.

Ódýrari gerðin af hjólunum, Plus, kostar á bilinu sextíu til hundrað þúsund krónur eftir stærð. Plus hjólin eru létt og sterk og hafa getið sér gott orð meðal fluguveiðimanna. Dýrari gerðin, Invictus, kostar frá hundrað upp í hundrað og fjörutíu þúsund krónur, en það hjól er með nýstárlega bremsu sem kallast SAB eða Shock Absorbing Brake. Bremsan er mýkri en áður hefur þekkst og minnkar þannig líkurnar á að menn missi „þann stóra“!

Frumkvöðullinn og fluguveiðimaðurinn Steingrímur Einarsson stofnaði fyrirtækið Fossdal árið 2007. Hugmyndin var að þróa og smíða framúrskarandi fluguveiðihjól. Að baki fyrirtækinu býr einnig 25 ára reynsla af málmsmíði.

Hér má sjá heimasíðu Einarssonar

Hér er frétt á Vísir.is

Sjá einnig