Norðmenn vilja kaupa álverið í Straumsvík

Norðmenn vilja kaupa álverið í Straumsvík

Norski álframleiðandinn Norsk Hydro hefur lagt fram skuldbindandi tilboð um kaup á álverinu í Straumsvík sem er í eigu Rio Tinto. Helgi Vífill Júlíusson fjallar um  málið í Morgunblaðinu í dag. Hér má lesa fréttina: 


„Fyrirhuguð kaup falla vel að stefnu Norsk Hydro. Málmurinn á Íslandi er framleiddur með endurnýjanlegri orku eins og raunin er með framleiðslu okkar í Noregi. Ál er málmur framtíðarinnar. Eftirspurn eftir honum mun vaxa mest af öllum málmum,“ segir Ola Sæter, framkvæmdastjóri hjá Norsk Hydro, í samtali við Morgunblaðið.
Tilboðið til Rio Tinto nær einnig til 53% hollensku skautverksmiðjunnar Aluchemie og 50% hlutar í sænsku álflúoríð-verksmiðjunni Alufluor. Ef af kaupunum verður mun Norsk Hydro eignast hollenska fyrirtækið og hið sænska að fullu því það á þegar
hinn helminginn í félögunum. Samanlagt nemur tilboðið til Rio Tinto 345 milljónum dollara, jafnvirði tæplega 35 milljarða króna.
Sæter segir að til skamms og meðallangs tíma muni fjöldi starfsmanna ekki taka breytingum. „Skuldbindandi tilboði fylgja viðræður við fulltrúa starfsmanna álversins og samkeppnisyfirvöld.“
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segist taka tilboðinu fagnandi. „Það er af hinu góða að fá bindandi tilboð frá alvöru álframleiðanda og vinaþjóð okkar,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.
Að sögn Sæter er starfsemin á Íslandi vel rekin og tækjabúnaður hafi verið uppfærður á liðnum árum til að mæta ýtrustu kröfum frá bílaframleiðendum.
„Við teljum að Norsk Hydro geti lagt hönd á plóg til dæmis er varðar áframhaldandi tækniþróun álversins,“ segir hann.
Rio Tinto á Íslandi tapaði 28,8 milljónum dollara árið 2016 eða 2,9 milljörðum króna samanborið við 1,9 milljóna dollara tap árið áður. Samkvæmt ársreikningi Rio Tinto á Íslandi árið 2016 var álverð lágt það ár.
Sæter sagði að reksturinn hefði batnað umtalsvert að undanförnu en hann gæti ekki farið nánar út í þá sálma.
Rio selur eignir
Fram kom í frétt á Bloomberg í október að Rio Tinto hefði selt eignir fyrir meira en sjö milljarða dollara frá árinu 2013. Forstjóri félagsins sagði að hækkandi verð á málmum og raforku hefði gert það fýsilegt að selja eignir sem féllu ekki að rekstrinum.
Norsk Hydro er skráð á hlutabréfamarkað í Noregi. Stærsti hluthafi félagsins er norska ríkið með um 34% hlut. Félagið er með 35 þúsund starfsmenn í 40 löndum.


Sjá einnig