Stjórnvöld falla frá kolefnisskatti

Samtök atvinnulífsins, Samál, og fulltrúar helstu fyrirtækja sem ætlað var að greiða kolefnisgjald af föstu kolefni áttu í dag fund með fjármálaráðherra og fulltrúum iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins.

Á fundinum lýsti fjármálaráðherra því yfir að hann myndi leggja til hliðar áform um breikkun stofns kolefnisgjalds sem finna má í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hann ítrekaði einnig fyrirheit um að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja sem reka starfsemi sína hér á landi gagnvart erlendum samkeppnisaðilum.

Á fundinum var ákveðið að aðilar myndu í framhaldinu eiga samráð um innleiðingu evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir (ETS) og önnur skattamál þeim tengd.

Með þessu tekur fjármálaráðherra af allan vafa hvað varðar fyrirkomulag þessarar skattheimtu hér á landi. Innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur verið samþykkt að innleiða viðskiptakerfi ETS og mun innleiðing þess hér á landi hefjast strax um næstkomandi áramót. Það tíðkast hvergi að skattleggja jafnframt kolefni í aðföngum fyrirtækja. Skattlagning kolefnis innan EES svæðisins er tvískipt. Stærri fyrirtæki, líkt og álver, greiða fyrir losunarheimildir innan ETS viðskiptakerfisins, en smærri fyrirtæki og einstaklingar greiða hins vegar skatt á aðföng, þar sem ekki þykir svara kostnaði að mæla losun þeirra með beinum hætti.

Það er fagnaðarefni að með þessari yfirlýsingu fjármálaráðherra hafi verið tekinn af allur vafi varðandi slíka tvískattlagningu hér á landi.

Sjá einnig