Tækifæri í loftslagsmálum

Það var fróðlegt að heyra Tor Arne Berg forstjóra Fjarðaáls bera saman rekstrarumhverfi álvera hér á landi og í Noregi á Iðnþingi. Ljóst má vera að við getum lært margt af frændum vorum Norðmönnum í þessum efnum, enda eiga þeir lengri sögu um orkusækinn iðnað, en við þurfum ekki að vera neinir eftirbátar þeirra.

 

Loftslagsvæn framleiðsla

Umhverfi orkusækins iðnaðar í þessum nágrannalöndum er sambærilegt um margt. Beggja vegna Atlantsála er sjálfbær og endurnýjanleg orka notuð til álframleiðslunnar, þannig að kolefnisfótsporið er margfalt minna en í löndum á borð við Kína, þar sem um 80% af orkunni kemur frá kolum.

Einnig hafa álverin lagst í miklar fjárfestingar og þróað starfsemina til að bæta nýtingu orku, endurvinna flúor í framleiðsluferlinu og tryggja jafnari kerrekstur. Þannig hefur dregið úr losun CO2 hér á landi um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990.

Af skýrslu Fraunhofer um samkeppnisstöðu orkusækins iðnaðar á Íslandi sem kynnt var á haustdögum kom fram að flutningskostnaður væri mun hærri hér á landi en í Noregi. Það grefur undan samkeppnishæfni orkukaupenda hér á landi, en einnig orkuseljenda sem fá þá ekki eins stóran skerf af heildarverði raforku. Það er fagnaðarefni að iðnaðarráðherra hafi lagt fram tillögur sem ætlað er að auka skilvirkni þessa kerfis.

 

ETS grefur undan samkeppnishæfni

Þá eru bæði Noregur og Ísland aðilar að ETS, viðskiptakerfi ESB um viðskiptaheimildir. En útkoman er ólík.

Fram hefur komið að stóriðjan í Noregi fær háar endurgreiðslur af þeim hluta raforkuverðsins sem fellur til vegna kostnaðar sem orkuver í Evrópu bera af kaupum á losunarheimildum. Í skýrslu Fraunhofer var varað við því að þær endurgreiðslur fari hækkandi og grafi undan samkeppnisstöðu íslenskra álvera, sem njóti engra slíkra endurgreiðslna.

Verð á losunarheimildum hefur margfaldast á síðustu árum. Álver í Evrópu þurfa að kaupa heimildir til að mæta losun af sinni framleiðslu og miðað við verðþróunina má reikna með að kostnaður álvera á Íslandi af heimildakaupum nemi árlega á annað þúsund milljónum. Á meðan þeim kostnaði er velt á iðnaðinn hagnast ríkissjóður æ meira á sölu losunarheimilda. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs nemi um 1,3 milljörðum á þessu ári en líklegt er að sú tala verði enn hærri þegar fram í sækir.

 

Fjárfestinga er þörf

Það verkefni er tröllvaxið að draga úr frekar úr losun frá álframleiðslu, enda þarf þá að þróa nýja tækni og umbylta framleiðsluferlum. Þó að íslensk álver séu í fremstu röð í loftslagsmálum er ljóst að gríðarlegar fjárfestingar eru fram undan og má iðnaðurinn því illa við þessari blóðtöku. Keppt er að þessari tækniþróun um allan heim og til þess að ná árangri þurfa íslensk stjórnvöld að endurfjárfesta þeim tekjum sem þau hafa af ETS-kerfinu í loftslagsvænum verkefnum í orkuiðnaði. Annars er ETS-kerfið farið að vinna gegn markmiðum sínum.

Nægir að líta til Noregs í þeim efnum, sem kom á fót Enova-fjárfestingarsjóðnum í því skyni. Hugmyndin með því var sú að styrkir frá Enova gerðu fyrirtækjum kleift að ráðast í loftslagsvæn verkefni, sem ella hefðu ekki orðið að veruleika. Dæmi um það er ný kerlína í álveri Norsk Hydro á Karmøy, þar sem orkunýtnin er betri en áður þekktist, en að því verkefni komu verkfræðistofurnar Verkís og Mannvit.

 

Ekki skortir tækifærin

Ekki skortir fjárfestingartækifærin í íslenskum áliðnaði. Nefna má niðurdælingu kolefnis eða „gas í grjót“, en stóriðjan skrifaði undir viljayfirlýsingu um þróun á því umfangsmikla verkefni með Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnvöldum síðastliðið sumar.

Þá eru Rio Tinto og Alcoa að þróa framleiðslutækni með kolefnislausum skautum í samstarfi við Apple og kanadísk stjórnvöld, en ef það gengur eftir myndast súrefni en ekki CO2 við álframleiðslu. Einnig er slíkt þróunarverkefni í gangi hjá Arctus og Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við þýska álframleiðandann Trimet.

Norðurál hefur kynnt áform um 12 milljarða fjárfestingu í nýjum steypuskála, en það er loftslagsvænt í eðli sínu þar sem álið færist einu skrefi lengra í virðiskeðjunni á meðan það er enn í fljótandi formi.

Ef Ísland vill leiða tækniþróunina í álframleiðslu eru tækifærin til staðar, en til þess að ýta undir fjárfestingu þarf stöðug og samkeppnishæf rekstrarskilyrði til framtíðar og að fjármunir sem ríkið aflar með ETS renni til loftslagsvænna verkefna eins og í löndunum í kringum okkur.

Sjá einnig