Tækifærin mikil fyrir íslenskan áliðnað

„Eftirspurn eftir áli er að aukast á heimsvísu og álnotkun er að aukast gríðarlega á ýmsum sviðum og því tel ég tækifærin mikil fyrir íslenskan áliðnað,“ segir Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls í viðtali við Viðskiptablaðið í dag. Tilefnið er að Norðurál var nýlega valið af Creditinfo sem eitt af tíu framúrskarandi fyrirtækjum landsins.

Ragnar segir að framundan sé spennandi uppbygging hjá Norðuráli fyrir á annan tug milljarða sem feli í sér framleiðsluaukningu á Grundartanga, auk uppbyggingar nýs álvers í Helguvík. „Álver í Helguvík hefði í för með sér gífurlegan ávinning fyrir íslenskt efnaahgslíf og mun skapa vel á annað þúsund vel launaðra starfa.“

Á síðasta ári framleiddi Norðurál um 290 þúsund tonn af áli og er það stærsti atvinnurekandi á Vesturlandi með um 600 manns að jafnaði í vinnu. „Norðurál er tiltölulega ungt fyrirtæki og allur búnaður er af nýjustu og bestu gerð,“ segir Ragnar.

„Við leggjum áherslu á fyrirbyggjandi viðhald sem veitir ákveðið forskot. Áratuga gömul álver í Evrópu eru ekki í sömu stöðu sem er ein ástæða þess að þau hafa látið undan í samkeppni. Það styrkir hins vegar stöðu íslensks áliðnaðar. Það má einnig nefna að árangur Norðuráls á sviði umhverfis- og öryggismála er á heimsmælikvarða og leggjum við mikla áherslu á þjálfun og aðbúnað starfsfólks.“ 

Sjá einnig