Því fleiri stoðir, því meiri viðnámsþróttur

Það sýnir sig aftur og aftur að ekki er nóg að stoðir íslensks efnahagslífs séu traustar heldur skiptir fjöldi þeirra máli. Það kom á daginn þegar netbólan sprakk í byrjun aldarinnar, í hruni fjármálakerfisins fyrir rúmum tíu árum og aftur núna í heimsfaraldrinum þegar ferðaþjónustan hefur átt undir högg að sækja.

Stundum er því þannig háttað í þjóðmálaumræðunni, að þegar ný atvinnugrein kemur til sögunnar minnkar vægi þeirra sem fyrir eru og þær þykja síður spennandi. Enda er hagnaðarvonin meiri þar sem vöxturinn er hraður og mikill.

En sagan kennir okkur að þegar áföllin dynja yfir eru vaxtargreinarnar veikari fyrir og mikilvægi þeirra eykst sem fest hafa rætur á lengri tíma og búa því yfir meiri stöðugleika.

Undanfarna áratugi hafa stoðirnar verið þrjár sem skapa Íslendingum stærstan hluta útflutningstekna; sjávarútvegur, ferðaþjónusta og álframleiðsla. Einnig er farið að tala um hugverkaiðnað sem fjórðu stoðina. Og allar sækja þessar greinar þrótt hver í aðra.

Það heyrir því sögunni til að afkoma þjóðarbúsins ráðist af stærð þorskstofnsins eins og áður var. Til dæmis um það má nefna að frá árinu 1969, þegar framleiðsla áls hófst á Íslandi, hefur hlutur áls í vöruútflutningi margfaldast en hlutur sjávarútvegs nær helmingast. Vægi áliðnaðar er nú um 40% og þjóðarskútan stöðugri fyrir vikið. Svo vitnað sé til skýrslu Hagfræðistofnunar frá árinu 2009 um áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf:

„Áratuga reynsla Íslendinga af einhæfum útflutningi sjávarafurða með tilheyrandi sveiflum, bæði vegna aflabrests heima og verðsveiflna á erlendum mörkuðum, undirstrikar mikilvægi þess að búa við stöðugt gengi. Almennt gildir sú regla að því fjölbreyttari sem útflutningur er því minni verða ófyrirséðar sveiflur á verðmæti hans.“

 

Búast má við umskiptum 2021

Alls námu útflutningstekjur álvera á Íslandi 208 milljörðum árið 2020 og innlendur kostnaður um 93 milljörðum, en það er tala sem mér er ekki kunnugt um að aðrar atvinnugreinar taki saman, en hún dregur skýrt fram hversu mikilvæg álverin eru fyrir íslenskt efnahagslíf. Til samanburðar má geta þess að rekstrarkostnaður Landspítalans nam í fyrra 77 milljörðum, eins og Gunnar Guðlaugsson forstjóri Norðuráls og stjórnarformaður Samáls kom inn á í ræðu sinni á nýafstöðnum ársfundi samtakanna.

Framleiðslan nam 840 þúsund tonnum í fyrra, en náði hæst um 900 þúsund tonnum árin 2017 og 2018. Nokkuð dró því úr framleiðslu síðustu tvö árin, en á sama tíma var umræða um samkeppnisstöðu áliðnaðar hér á landi í brennidepli. En nú þegar samningar hafa náðst í Straumsvík og álmarkaðir tekið við sér má búast við umskiptum árið 2021. Það er kunnuglegt stef þegar kreppir að í þjóðarbúinu að áliðnaðurinn standi styrkum fótum og nægir að rifja upp að álverin þrjú hér á landi réðust í fjárfestingar fyrir um hundrað milljarða á árunum eftir hrun.

 

Eftirspurn áls eykst áfram

Stærsti hluti innlends kostnaðar er raforkan eða rúmir 45 milljarðar. Þess utan námu kaup á innlendum vörum og þjónustu af hundruðum fyrirtækja 24,5 milljörðum. Laun og launatengd gjöld námu 20,5 milljörðum. Þá námu opinber gjöld tæpum þremur milljörðum í fyrra og styrkir til samfélagsmála yfir 100 milljónum.

Framlag álveranna þriggja til efnahagslífsins er því verulegt. Og ekkert sem bendir til annars en áliðnaður blómgist áfram hér á landi. Eftirspurn áls fer vaxandi í heiminum, enda er það hluti af lausninni í loftslagsmálum. Til dæmis má nefna að það léttir bíla, sparar orku í byggingum og dregur úr matarsóun, auk þess sem það má endurvinna álið aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Þá varðar miklu að hvergi er minni losun frá álframleiðslu en á Íslandi. Í því felast sóknarfæri.

 

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 26. maí 2021

Pétur Blöndal

framkvæmdastjóri Samáls, Samtaka álframleiðenda

Sjá einnig