Orkumál, áliðnaður og Evrópa

 

Eins undarlegt og það er hefur frumframleiðsla á áli innan Evrópusambandsins dregist verulega saman á sama tíma og eftirspurn eftir áli hefur aldrei verið meiri í heiminum. Þetta kom fram í máli Gerd Götz, framkvæmdastjóra Evrópsku álsamtakanna, á ársfundi Samáls 20. maí síðastliðinn. Þar sagði hann að frumframleiðsla innan Evrópusambandsins hefði dregist saman um 36%. Það hefði stuðlað að því að yfir 50% af öllu áli sem notað væri til framleiðslu innan Evrópusambandsins væri nú flutt inn annars staðar frá. Hallinn nemur samtals um 5,2 milljónum tonna.

Eftirspurn á heimsvísu hefur hins vegar aldrei verið meiri, yfir 50 milljónir tonna af frumframleiddu áli, auk um 30 milljóna tonna af endurunnu áli, en þess má geta að hver Evrópubúi notaði að meðaltali um 22 kíló af áli árið 2012.

Í nýlegri skýrslu CEPS sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kom fram að 11% bættust ofan á framleiðslukostnað á áli vegna regluverks Evrópusambandsins. Engin leið er fyrir álframleiðendur í Evrópusambandsríkjunum að bæta sér það upp með því að velta því út í verðið, því verð á áli ræðst á heimsmarkaði.

Ellefu álverum hefur verið lokað innan Evrópusambandsins frá 2007. Þau álver sem enn starfa innan þess eru með langtímasamninga um orku og hafa því ekki orðið fyrir barðinu á háu orkuverði, en þeir samningar renna flestir út á næstu fimm árum.

Antonio Tajani, iðnaðar- og nýsköpunarstjóri ESB, hefur lýst áhyggjum af þessari þróun. Hann hefur markað stefnu um „enduriðnvæðingu Evrópu“, þar sem lagt er upp með að iðnaður verði 20% af þjóðarframleiðslu Evrópusambandsins, en nú er hann dottinn niður fyrir 16%. Tajani hefur rökstutt það með því að iðnvæddustu ríki Evrópusambandsins hafi komist best frá bankahruninu.

Götz dró fram á ársfundi Samáls að í þessari þróun fælust tækifæri fyrir Ísland. Evrópusambandið er helsti markaður fyrir ál sem framleitt er hér á landi og nú þegar dregur úr frumframleiðslu á áli innan Evrópusambandsins verður staðsetning Íslands styrkur, þar sem við erum nálægt mörkuðum í Evrópu.

En þróunin í Evrópu sýnir hins vegar vel hversu mikilvægt er að iðnaður hér á landi búi við samkeppnishæf skilyrði. Áliðnaður er ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs og fjölbreytt atvinnulíf með öflugum iðnaði er forsenda stöðugleika sem byggjandi er á.

Pétur Blöndal

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.

Sjá einnig