Aukin eftirspurn í pípunum

Aukin eftirspurn í pípunum

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri samtaka álframleiðenda, Samáls, segir að greiningaraðilar spái því flestir að álverð á heimsmarkaði muni fara heldur hækkandi á þessu ári og næstu árum. Rætt er við hann í fréttaskýringu Kristjáns Jónssonar í Morgunblaðinu.

„Nokkrir þættir eru taldir ýta undir þá þróun,“ segir Pétur. „Markaðir almennt í Evrópu og Bandaríkjunum eru að taka við sér, kreppan á síðastliðnum árum hefur bitnað mjög á byggingar- og bílaiðnaðinum, en þar eru stærstu markaðssvæði áliðnaðarins. Þar er nú mikil eftirspurn í pípunum.

Álbirgðir eru mældar í hlutfalli við eftirspurn á hverjum tíma, eftirspurn hefur aukist mjög hratt, farið úr 40 milljónum tonna á ári í 50 milljónir og er búist við að hún verði komin í 62 milljónir árið 2017. Þetta hefur áhrif á birgðastöðuna. Á fyrsta ársfjórðungi var staðan þannig að tekið hefði um 100 daga að tæma vöruhúsin, á síðasta ársfjórðungi var talan komin í rúma 80 daga. Spáð er að talan verði orðin um 60 dagar árið 2017, það mun létta á þrýstingi á álverðið.“

Þegar álverðið var hvað hæst árið 2007 voru álbirgðirnar á því róli, um 60 daga hefði tekið að klára þær. Pétur bendir á að dregið hafi úr álframleiðslu í Evrópu vegna þess hve orkuverðið er orðið hátt vegna svokallaðra grænna orkuskatta sem miða að því að minnka losun koldíoxíðs. Fram kemur í nýrri úttekt á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að það kosti áliðnaðinn 11% aukalega að vera með verksmiðjur sínar í löndum sambandsins, ofan á framleiðsluverð.

Sjá einnig