Vinnumarkaður

Hjá fyrirtækjum í íslenskum áliðnaði starfa liðlega 2.000 manns, þar af yfir 500 á vegum verktaka. Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má gera ráð fyrir að starfamargfaldari áliðnaðarins sé 1,4. Þannig má ætla að minnsta kosti um 5.000 manns hafi framfæri sitt af álframleiðslu með beinum hætti.

Í gegnum tíðina hafa álver á Íslandi almennt greitt hærri laun en almennir kjara-samningar kveða á um og álver hafa verið eftirsóttir vinnustaðir. Álverin hafa þannig haft tiltölulega greiðan aðgang að vinnuafli og þeim hefur jafnframt haldist vel á starfsfólki sínu. Á árinu 2009 voru heildarlaun starfsfólks í álverum að meðaltali 437.000 kr. á mánuði. Til samanburðar voru heildarlaun verkafólks 320.000 kr. að meðaltali, samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. Á bak við heildarlaun verkafólks voru 44,5 vinnustundir á viku en 43,2 vinnustundir í álverum. Heildarlaunagreiðslur álfyrirtækjanna þriggja námu um 14,5 milljörðum króna árið 2012.

Erfitt er að fullyrða um nákvæm áhrif stóriðjuframkvæmda á búsetu og vinnumarkað viðkomandi svæða enda ástand á vinnumarkaði og sveigjanleiki vinnuaflsins afar mismunandi eftir svæðum. Hitt er vitað að uppbygging stóriðju skapar ýmis störf, bæði við virkjanaframkvæmdir, byggingu álvera og rekstur þeirra. Í sumum tilfellum er um að ræða sérhæfð störf, sem hefðu ella ekki  orðið til, í öðrum tilfellum almennari störf, t.d. við ýmis konar þjónustu.

Að auki ber að hafa í huga að þegar álver er byggt er ekki tjaldað til einnar nætur heldur miðast uppbyggingin við áratugalanga starfsemi. Tilkoma álvers er því góð kjölfesta fyrir atvinnulíf viðkomandi svæðis.

Unnin var vönduð úttekt á áhrifum af byggingu álvers Alcoa-Fjarðaáls á Norðausturlandi. Þar kemur meðal annars fram að íbúum á svæðinu fjölgaði um 22% á árunum 2002-2008. Að sama skapi hækkuðu laun marktækt meira á svæðinu en annars staðar á landsbyggðinni. Meðallaun á áhrifasvæði framkvæmdanna hafa verið þau hæstu á landsbyggðinni frá 2002.

Sjá einnig