Ætti að vera baráttumál að ál sé framleitt hér á landi

Starfsemi Alcoa á Reyðarfirði hefur reynst mikil innspýting fyrir atvinnulíf og menningu í Fjarðabyggð síðustu 11 ár. Þar starfa 550 manns, en til viðbótar eru 350 starfsmenn verktakafyrirtækja. Alcoa Fjarðaál flutti út vörur fyrir 81 milljarð króna á síðasta ári og 36% urðu eftir í landinu. Þá greiddi félagið einn milljarð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi. Magnús Þór Ásmundsson forstjóri væntir þess að félagið byrji að borga tekjuskatt hér á landi snemma á næsta áratug, en Þóroddur Bjarnason tók viðtal við hann fyrir Morgunblaðið. Hér má lesa viðtalið: 

Íslensk starfsemi Alcoa skiptist í þrjá hluta. Fyrst ber að telja tvö eignarhaldsfélög sem einkum sjá um fjármögnun, Alcoa á Íslandi og Alcoa Reyðarál. Þriðja félagið, Alcoa Fjarðaál, sér síðan um rekstur álversins á Reyðarfirði. 354 þúsund tonn voru framleidd í kerskála Fjarðaáls í fyrra, sem var met, en framleiðslan í steypuskála gaf 357 þúsund tonn af vörum eftir að íblöndunarefnum hafði verið bætt í.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, tók upphaflega við sem forstjóri eignarhaldsfélaganna tveggja árið 2012, en árið 2014 var hann ráðinn forstjóri rekstrarfélagsins.

Alcoa Fjarðaál er hluti af hinu alþjóðlega stórfyrirtæki Alcoa, sem skráð er á hlutabréfamarkað í New York og er með starfsemi um allan heim. „Það varð stór breyting á félaginu fyrir ári þar sem Alcoa Inc. hafði vaxið mikið í framleiðslu fullunninna vara fyrir viðskiptavini. Ákveðið var að skipta félaginu í tvennt, en álitið var að báðir hlutar félagsins væru orðnir nógu stórir til að geta staðið sem sjálfstæðar einingar. Þar með urðu til fyrirtækin Alcoa Corporation, sem í dag leggur áherslu á hrávöruframleiðsluna, sem segja má að sé gamla Alcoa og framleiðir súrál og ál, og Arconic, en það félag vinnur íhluti beint fyrir viðskiptavini, og þá einkum flugvélaiðnaðinn,“ segir Magnús í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að til samanburðar hafi Alcoa Fjarðaál frá upphafi framleitt bæði virðisaukandi vörur og hráál. „Hráál, sem er án íblöndunarefna, er steypt í svokallaða hleifa og þeir eru fluttir út til Rotterdam eins og allar okkar vörur. Viðskiptavinirnir okkar bræða hleifana svo upp og nota í ýmsa framleiðslu, eins og til dæmis drykkjarvöruumbúðir. Virðisaukandi vörurnar okkar eru svo tvær, annarsvegar álvír sem er notaður í rafmagnsvíraframleiðslu, og svo álstangir með íblöndunarefnum, sem notaðar eru í bifreiðaiðnað, meðal annars í felgur. Vírinn er framleiddur í mismunandi sverleika, 9-25 mm, og svo unninn áfram hjá viðskiptavininum í rafmagnsvíra, teygður og valsaður.“

Aukning í virðisaukandi vörum

Magnús segir aðspurður að hlutföll í framleiðslu Fjarðaáls hafi breyst á þeim 11 árum sem liðin eru frá gangsetningu verksmiðjunnar. Upphaflega hafi hlutur hrááls verið meiri en í dag. Hlutur virðisaukandi vara hefur aukist eftir því sem fyrirtækið hefur náð betri tökum á þeirri tækni sem þarf til slíkrar framleiðslu. „Við erum í dag kannski komin á þann stað í afköstum sem við teljum okkur geta náð.“
 

Spurður að því hvernig vöruþróun sé háttað í framleiðslunni hér á Íslandi, segir Magnús að markaðssetningin á vörunum fari öll fram í Rotterdam. „Í raun tökum við við pöntunum þaðan.“

Hann segir aðspurður að sérstaða verksmiðjunnar sé víraframleiðslan.

Magnús bendir líka á virðisaukann í þekkingunni sem orðið hefur til í kringum áliðnaðinn hér á landi. Hún sé fyrir löngu orðin útflutningsvara.

Við framleiðslu íhluta úr áli er íblöndunarefnum blandað í álið til að auka gæði og fjölga eiginleikunum. Spurður að því hvort rætt hafi verið um að nota íslensk íblöndunarefni, eins og úr nýju kísilverksmiðjunni á Bakka, segir Magnús að slíkt hafi verið rætt. „Ímyndarlega yrði það gott fyrir báða aðila. Það eru engin viðskiptasambönd komin á ennþá, en menn hafa íhugað þetta og rætt saman.“

Ímynd áliðnaðarins hér á landi hefur lengi litast af umhverfisverndarumræðunni í kringum virkjanaframkæmdir. Magnús segir að fyrirtækið framkvæmi reglulega viðhorfskannanir í nærumhverfi og á landsvísu. „Fyrirtækið nýtur mjög mikils trausts hér í nærumhverfinu. Við leggjum áherslu á að vera góður nágranni. Ég held að ímyndarvandi áliðnaðarins sé minni en margur heldur, og ímyndin hefur batnað á þeim tíma sem liðið hefur síðan ég tók við sem forstjóri. Ég held að fólk sé sífellt að átta sig betur á því hvað það er mikilvægt að framleiða ál með endurnýjanlegum orkugjöfum eins og gert er hér. Það ætti að vera baráttumál umhverfisverndarsinna að ál sé frekar framleitt hér á Íslandi en annars staðar.“

Magnús segir að auk þess sem framleiðslan sé umhverfisvæn, þá standist fá hráefni álinu snúning þegar komi að endurvinnslu. „75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum eru ennþá í umferð. Ál tapar engum eiginleikum við endurvinnslu. Það er einfaldlega brætt upp og svo er íblöndunarefnum bætt í eftir þörfum.“

Hann segir að mikil framþróun sé í gangi í alþjóðlegum áliðnaði. „Notkunargildi málmsins hefur aukist. Núna er ál ekki bara í yfirbyggingu bíla heldur líka í grindum og mótorhlutum. Bílarnir verða því léttari, og útblástur minni. Þá er verið að skoða notkun áls í rafgeyma, sem myndi leysa af hólmi efni sem eru ekki eins umhverfisvæn.“

Fyrr á árinu tilkynntu álfyrirtækin Alcoa og Rio Tinto um sameiginlegt verkefni sem snýr að svokölluðum óvirkum rafskautum, en með þeim mun umhverfisvænleiki framleiðslunnar ná nýjum hæðum. „Með óvirkum skautum eru ekki notuð kolefni, heldur keramikefni. Endingin er betri og útblástur frá þannig álveri yrði einöngu hreint súrefni. Áfangasigur varð í þessari þróun í vor, sem þýðir að lausnin er tæknilega möguleg. Apple-tæknirisinn er samstarfsaðili álfyrirtækjanna í þessu verkefni, en Apple hefur verið gagnrýnt fyrir að nota ekki umhverfisvænt ál í sinni framleiðslu. Fyrirtækið vill bæta úr því. Alcoa og Rio Tinto stofnuðu sameiginlega fyrirtækið Elysis sem mun vinna að því að skala upp lausnina til notkunar í nútíma álverum og verður það staðsett í Quebec í Kanada.“ 

Krónan hefur óþægileg áhrif

Spurður um reksturinn almennt þá segir Magnús hann sveiflast eftir heimsmarkaðsverði áls, en einnig spili gengismál rullu. „Við gerum upp í bandaríkjadölum, en höfum mikinn kostnað í íslenskum krónum. Gengisbreytingar krónunnar hafa óþægilega mikil áhrif á okkar rekstur.“
 

Magnús segir að almennt hafi náðst afbragðsárangur í umhverfismálum verksmiðjunnar. Útblástur hafi þannig verið 24 kg af flúor per tonn af áli, sem sé með því lægsta sem þekkist í heiminum. PFC-gróðurhúsalofttegundir hafi minnkað um 27% milli 2016 og 2017. „Það er mikilvægur og ánægjulegur árangur. Við náðum því með stórri fjárfestingu sem við réðumst í varðandi breytingu á mötun kerja í kerskálanum.“

Næsta verkefni til að ná fram enn hreinni framleiðslu er að skipta út öllum síupokum í reykhreinsivirkinu. „Það mun minnka útblástur okkar enn frekar. Fjárfestingin er mæld í milljónum dollara. Breytingin í kerskálanum kostaði sem dæmi fimm milljónir dala.“

Stöðugt er unnið að úrbótum í rekstrinum að sögn Magnúsar. Mikilvægt sé að ná stöðugt meiri framleiðni. Það vegi á móti auknum launakostnaði. Eitt af því sem Magnús nefnir til að auka framleiðnina er aukin sjálfvirkni í verksmiðjunum. „Álver framtíðarinnar verða með sjálfkeyrandi ökutæki til dæmis. Í systurfyrirtæki okkar í Noregi eru slík ökutæki komin í notkun, og við horfum til þess að gera það sama.“

Alcoa Fjarðaál hefur á síðustu árum orðið fjölskylduvænni vinnustaður en áður var. „Við styttum vaktir úr 12 tímum í 8 tíma og fækkuðum þannig vinnustundum starfsfólks. Til að mæta því þurftum við að ráða 50 nýja starfsmenn. Þetta varð veruleg kjarabót fyrir fólkið. Jafnréttismál eru okkur mikið hjartans mál og við státum af því að vera með hæsta hlutfall kvenna í Alcoa-samsteypunni, eða 24%. Fækkun vinustunda hafði meðal annars þau áhrif að konur hafa skilað sér betur úr fæðingarorlofi en ella.“

Magnús segir að mun fjölbreyttari hópur fólks hafi nú áhuga á að vinna hjá fyrirtækinu. „Hér sækja um vinnu konur og karlar, ungir og gamlir. Þetta er mikilvægt, því þá höfum við úr meira úrvali að spila. Jafnrétti og fjölbreytileiki er góður bissness.“

Spurður um hlutfall erlends starfsfólks segir Magnús að undir 10% starfsmanna séu með erlent ríkisfang, eða svipað hlutfall og er á íslenskum vinnumarkaði. Þá segir hann að farið sé að bera á því að önnur kynslóð fólks með erlendan uppruna sem flutt hefur til landsins til að vinna hjá Fjarðaáli sé komin til starfa. „Tæplega helmingur af vinnuafli Fjarðaáls er aðfluttur. Við getum því ekki sagt að svæðið hafi séð okkur fyrir öllu því vinnuafli sem þarf, en þetta hefur gefið fólki sem alist hefur upp á svæðinu tækifæri til að koma heim eftir nám og setjast hér að.“ 

Skortur á tæknimenntuðum áhyggjuefni

Yfir 100 háskólamenntaðir starfsmenn vinna hjá Fjarðaáli. „Hér hafa skapast vel launuð störf og með jafnlaunavottun tryggjum við að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Þá tökum við árlega í vinnu um 100-120 sumarstarfsmenn og gætum þess að þar sé jafnt hlutfall kvenna og karla.“
 

Magnús segir að skortur á verk- og tæknimenntuðu fólki sé áhyggjuefni, en Alcoa hefur lagt sitt af mörkum til að hvetja fólk til að læra þær greinar. „50 manns sækja stóriðjuskólann okkar á hverju ári, og svo erum við í góðu samstarfi við Austurbrú og Verkmenntaskóla Austurlands, sem og Háskólann í Reykjavík. Menntamál eru okkur mikið hjartans mál og hluti af okkar mannauðsstefnu. Við fengum menntaverðlaun atvinnulífsins árið 2017 fyrir okkar framlag í þessum efnum. Þá höfum við styrkt verkefnið Verklegt er vitið í grunn- og leikskólum, en því er ætlað að efla kennara til að vera með verklega kennslu og raungreinakennslu á yngri skólastigum. Það hefur gefist mjög vel.“

Þegar kynning á Alcoa Fjarðaáli fór fram í upphafi var lögð áhersla á jákvæð áhrif verksmiðjunnar fyrir nærumhverfið. Hefur þessi þróun orðið eins og lagt var upp með?

„Já, það hefur orðið. Við erum góð í að framleiða ál og útvistum því annarri starfsemi, eins og mötuneyti, verkfræðiþjónustu o.s.frv. Orðið hafa til öflug fyrirtæki eins og t.d. Launafl sem við kaupum mikla þjónustu af, sérstaklega í viðhaldsmálum. Svo má nefna Lostæti sem rekur mötuneytið okkar og Fjarðaþrif með ræstingarnar. Slökkvilið Fjarðabyggðar er síðan á Reyðarfirði. 20 manns eru þar í fullu starfi, auk fjölmenns varaliðs. Ekki væri hægt að halda úti jafn öflugu slökkviliði nema vegna Alcoa. Áhrifin á atvinnulífið og samfélagið eru því margvísleg.“

Magnús bendir á vefinn sjalfbaerni.is en þar hefur Fjarðaál í samstarfi við Landsvirkjun skjalfest sjálfbærniáhrifin á svæðinu. „Ég tel að þetta sé einstakt verkefni á heimsvísu. Þarna er á einum stað hægt að skoða áhrif stórframkvæmda, virkjunar og álvers, á samfélag eins og hér er.“

Magnús bendir á hve stóra hlutdeild Fjarðabyggð hefur í útflutningsverðmætum þjóðarinnar, eða yfir 20%. Þegar uppsjávarfiskveiðar eru í gangi getur þessi hlutur orðið allt að 40%.“

Alcoa Fjarðaál styrkir árlega samfélagsverkefni fyrir um 130 milljónir króna og deilir þannig fjármagni í vel valin verkefni á svæðinu. „Stærsti árlegi styrkur okkar fer til Vina Vatnajökulsþjóðgarðs, eða um 60 milljónir.“

Varðandi endurvinnslu þá endurvinnur félagið 99,6% af öllu í starfseminni. „Við endurvinnum allt nema lífrænan úrgang úr mötuneyti, sem er urðaður, en það stendur til bóta og þá verðum við komin upp í 100%. Hér fer til dæmis ekkert framleiðsluvatn til sjávar, heldur hringsólar í kerfunum. Þá söfnum við regnvatni í settjarnir með sérstökum gróðri.“

Félagið hefur oft verið gagnrýnt fyrir að greiða ekki tekjuskatt hér á Íslandi. „Upphafleg fjárfesting var 230 milljarðar króna, og því eru árlega afskriftir svo miklar að félagið nær aldrei að skila hagnaði til að það fari að borga tekjuskatta. Margir hafa viljað halda því fram að félagið muni aldrei borga tekjuskatt hér á landi, en ég tel líklegt að það hefjist snemma á næsta áratug miðað við sömu rekstrarforsendur.“

Magnús leggur áherslu á það sem eftir verður í landinu. „Það verða mikil verðmæti eftir í landinu í formi opinberra gjalda, launa, kaupa á vörum og þjónustu og samfélagsstyrkja. Á síðasta ári nam þetta um 29 milljörðum króna eða um 36% af tekjum.“

Vaxtagreiðslur félagsins eru af mörgum taldar óeðlilega miklar. „Fjárfestingin var stór og því eru greiðslurnar háar en lánin sem við höfum frá móðurfélaginu bera mjög hagstæða vexti, mun lægri heldur en almennt þekkist á íslenskum fjármálamarkaði.“

Þá hafa skuldir félagsins lækkað umtalsvert frá 2009. Rekstrarfélagið Fjarðaál hefur greitt upp sín lán við móðurfélagið, að sögn Magnúsar, en eignarhaldsfélagið, Alcoa á Íslandi, skuldar enn töluvert, þó staðan skáni ár frá ári, og eiginfjárstaðan batni.

Alcoa mun birta ársreikning sinn fyrir árið 2017 í ágúst nk. Mögulega verður þá í fyrsta sinn birt uppgjör með hlutdeildaraðferð, en með því fæst að sögn Magnúsar meira gagnsæi þar sem reikningurinn verður líkari samstæðureikningi.

Sjá einnig