Álbylting með nýja pallbílnum frá Ford

„Álbylting“ er orðið sem lesa má í fyrirsögnum bíla- og viðskiptablaða eftir að Ford hóf framleiðslu á nýja F-150 pallbílnum, en það er ein allra vinsælasta bílategundin vestanhafs. Í 2015 árgerðinni eru 95% af bílskrokknum úr áli og léttir það bifreiðina um yfir 300 kíló. Það felur ekki einungis í sér eldsneytissparnað, heldur vinnur bifreiðin betur og hefur meira dráttarafl fyrir vikið.

„Það er mjög einföld ástæða fyrir henni [þeirri þróun að bifreiðar eru að léttast],“ sagði talsmaður General Motors Klaus-Peter Marten og skírskotaði til harðara krafna frá stjórnvöldum um eldsneytisbrennslu bifreiða. „Með hverju grammi sem bifreiðar léttast, þá verður eldsneytisnotkunin hagkvæmari.“

F-150 er mest seldi bíll Ford og keppinautarnir keppast nú um að ná samningum við álframleiðendur, að því er fram kemur í Detroit News 12. febrúar sl. F-línan frá Ford selst í það miklu magni, að engin fordæmi eru fyrir slíkri eftirspurn eftir áli í bílaiðnaðinum. Það hefur þegar bundið stóran hluta af framleiðslu á álplötum sem sérsniðin er að bílaiðnaðinum.

Haft er eftir Tom Boney, sem er yfir farartækjadeild Novelis Inc. í Norður-Ameríku, að aðrir bílaframleiðendur hljóti að horfa til áætlana Fords fyrir nýja F-150 árgerðina og laga sína stefnu að þeim. En þeir séu mörgum skrefum á eftir Ford í að flytja framleiðsluna yfir í ál. Það feli ekki einungis í sér að þeir þurfi að tryggja sér ál til framleiðslunnar, heldur einnig að fjárfesta í framleiðslulínunni til að framleiða úr álplötum.

Í fréttinni kemur fram að álframleiðandinn Alcoa sé að auka álframleiðslu sína með nýjum álverum í Bandaríkjunum og Sádí-Arabíu til að búa sig undir meiri eftirspurn eftir áli í farartækjaiðnaðinum.  

Sjá einnig