Álver Alcoa vill breyta menningunni og reyna að ná jöfnu kynjahlutfalli starfsmanna

Álver Alcoa fjarðaráls á Reyðarfirði vill breyta menningunni á vinnustaðnum þannig að hann verði ekki karllægur og fleiri konur sækist eftir störfum þar. Fjórðungur af tæplega 500 starfsmönnum eru konur, markmiðið er að kynjahlutfallið verði jafnt. Þetta kemur fram í frétt RÚV. 

Álverið í Reyðarfirði hefur á undanförnum árum gert eitt og annað til að fjölga konum á vinnustaðnum. 8 tíma vaktakerfi var tekið upp í stað 12 tíma til að gera starfið fjölskylduvænna fyrir bæði karla og konur. Þá hefur Fjarðarál boðið starfsmönnum uppbót í fæðingarorlofi og reynt að mæta óskum fólks varðandi vinnutíma þegar það kemur til baka. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri, segir að næsta mál á dagskrá sé að skoða vinnustaðamenninguna.

Magnús Þór Ásmundsson: Við getum sagt það er feikilega mikilvægt að konur til dæmis upplifi sig ekki sem gesti á karllægum vinnustað. Ég held að við þurfum bara að taka samtal um það á vinnustaðnum bara hvað er viðeigandi eða
óviðeigandi hegðun eða framkoma á vinnustaðnum. Ég get nefnt sem dæmi karlinn sem óumbeðið tekur verkfærið af konunni af því að hann heldur að hann geti gert það betur, hann er kannski vel meinandi en þetta er ekki góð vinnustaðamenning.

Af 9 æðstu stjórnendum álversins er aðeins 1 kona. María Ósk Kristmundsdóttir, sérfræðingur í framleiðslustjórnun og formaður jafnréttisnefndar álversins, segir að til að breyta þessu þurfi að huga að því að þjálfa konur innan álversins og hvetja þær til að sækja um stjórnunarstöður.

María Ósk: Annað í karlamenningunni, eða þessi karlægu menningu að það er að þjálfa alla til jafnt í öllum störfum. Við erum auðvitað með kerfi þar sem að við
pössum upp á að allir fái eins hérna mikla þjálfun og krossþjálfun eins og við köllum, eins og hægt er, og þar er ekki gerður greinamunur á hvort þú ert karl eða kona, heldur áttu að fá þjálfun jafnt í að stýra krana eða vera hérna í stjórnunarbyrginu í einhverri tölvuvinnu. Þannig ég myndi segja það er eitt svona praktískt atriði sem við notum klárlega til þess að vinna gegn þessari karla menningu.


Sjá einnig