Flúor í grasi lækkaði um 19% milli ára í Reyðarfirði

 

Niðurstöður fyrir flúormælingar í grasi í Reyðarfirði liggja nú fyrir eftir sumarið 2014. Alls eru framkvæmdar sex mælingar; tvær í mánuði í júní, júlí og ágúst. Meðaltal þessara mælinga fyrir flúor í grasi er það sem borið er saman við viðmiðunarmörkin sem sett eru í vöktunaráætlun og eru 40 µg F/g gras. Þau mörk segja til um hvort frekari eftirfylgni og rannsókna er þörf eða ekki. Meðaltal sumarsins er 30,8 µg samanborið við 37,8 µg sumarið 2013 og 52 µg sumarið 2012. Tæknilegar bilanir hjá álverinu árið 2012 urðu þess valdandi að flúor í gróðri fór yfir viðmiðunarmörk og þar með voru settar af stað ýmsar aðgerðir til að koma í veg fyrir að slíkt myndi henta aftur, með jákvæðum árangri.

Í kjölfar margvíslegra aðgerða af hálfu starfsmanna Alcoa Fjarðaáls síðasta ár erum við afar ánægð að sjá að meðaltal flúors í grasi skuli endurspegla lágan flúorútblástur frá álverinu. Gildin fyrir flúor í grasi eru lægri en viðmiðin fyrir grasbíta segja til um. Þá hefur Matvælastofnun ítrekað staðfest að fólki stafar ekki hætta af neyslu matvæla af svæðinu.

Alcoa setur sér mjög strangar kröfur í umhverfismálum og umhverfisvernd er þungamiðja í starfsemi fyrirtækisins um allan heim. Við munum áfram vinna að stöðugum umbótum og vitum að það er okkar að lágmarka þau áhrif sem starfssemin hefur á umhverfið enda viljum við hjá Alcoa vinna með ábyrgum og sjálfbærum hætti í umhverfismálum.

Á vefnum sjalfbaerni.is, sem Austurbrú rekur fyrir hönd Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar, fylgjast óháðir sérfræðingar grannt með áhrifum álversins og Kárahnjúkavirkjunar á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Á vefnum eru birtar fjölmargar tölulegar upplýsingar sem gefa vísbendingu um áhrif af framkvæmdunum og þróun þeirra. Þar má til dæmis finna flúormælingar á fleiri plöntum en grasi, til dæmis berjum, rabarbara og kartöflum og hafa þær mælingar ávalt skilað góðum niðurstöðum.


Sjá einnig