Styrkar stoðir í áliðnaði

Styrkar stoðir í áliðnaði

„Áliðnaðurinn á Íslandi er í raun ungur,“ skrifar Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

„Fyrir 20 árum voru 100 þúsund tonn af áli framleidd í Straumsvík, í eina álverinu sem þá var rekið á Íslandi. Í dag nemur framleiðslan 850 þúsund tonnum í þremur álverum. Útflutningstekjur af áli á síðasta ári nema 227 milljörðum króna eða um 40% af útflutningsverðmæti okkar Íslendinga, sem er svipað því sem sjávarútvegur skilar.

Fyrir 20 árum voru sjávarútvegur og byggingariðnaður helsti vettvangur fyrir þjónustu íslenskra verktakafyrirtækja. Fyrir aðeins 10 árum voru erlend verktakafyrirtæki að byggja á Kárahnjúkum og í Reyðarfirði. Í dag starfa hundruð verkfræðinga og hundruð tæknimanna við að þjónusta áliðnað á Íslandi – og erlendis. Nú eru íslensk verktakafyrirtæki í stakk búin til að taka að sér hvaða verkefni sem er. Það er þekkingin sem ávannst við virkjanir fyrir álver sem hefur skapað þessa kunnáttu og verðmæti.

Öfugt við það sem sumir halda, eru ekki einungis þrjú álfyrirtæki á Íslandi, heldur skipta þau hundruðum. Þessi styrkur og breidd kom berlega í ljós á glæsilegum haustfundi íslenska álklasans þegar fulltrúar 80 fyrirtækja og stofnana komu saman. Ný fyrirtæki hafa sprottið upp í kringum áliðnaðinn og það segir sína sögu að árið 2014 keyptu álverin þjónustu af um 700 fyrirtækjum fyrir um 25 milljarða.

Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að um 10% af vergri landsframleiðslu verða til vegna þessara fyrirtæka, fyrirtækja í orku-áliðnaði. Það eru 10% af allri verðmætasköpun í landinu.

Eins og myndin sýnir þá hefur hlutur iðnaðar vaxið umtalsvert þegar kemur að útflutningsverðmætum íslensku þjóðarinnar. 

Við Íslendingar sannreyndum fyrir nokkrum árum hve miklu það skiptir að hafa hér öfluga grunnatvinnuvegi. Atvinnuvegi sem skapa þjóðinni verðmætar útflutningsvörur og gjaldeyristekjur þegar mest á reynir og flest annað bregst. Þessir grunnatvinnuvegir eru sjávarútvegur og áliðnaður. Þá er ástæða til að gleðjast yfir vexti ferðaiðnaðar.

Áliðnaðurinn hefur skapað gríðarleg verðmæti fyrir þjóðina. Um 1.500 manns starfa við áliðnaðinn. Afleidd störf eru um 5.000. Mikill og öflugur þekkingariðnaður hefur skapast í kringum áliðnaðinn og verðmæti orkufyrirtækja. 

Styrkleikar okkar sem samfélags til aukinnar atvinnusóknar og uppbyggingar liggja einkum á þremur sviðum. Sjávarútvegi, ferðamennsku, og grænum orkuiðnaði. Þetta eru meginstoðirnar og uppbygging þeirra getur og á að fara saman. Þetta eru styrkar stoðir sem framþróun, nýsköpun og sprotastarf byggir á. Grunnforsendan er alltaf öflugir grunnatvinnuvegir.“

Sjá einnig