Áfram ÍSAL

Hinn 28. mars, á annan í páskum, verða 50 ár liðin síðan skrifað var undir aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse um byggingu áliðjuvers í Straumsvík. Hjörtur Torfason lögfræðingur skrifar aðsenda grein á þeim tímamótum í Morgunblaðið. Greinina má lesa hér:
 
Hinn 28. mars, á annan í páskum, verða 50 ár liðin síðan skrifað var undir aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse um byggingu áliðjuvers í Straumsvík, í framhaldi af stofnun Landsvirkjuar 1. júlí 1965 og starfi hennar að undirbúningi fyrstu virkjunar í Þjórsá. Að baki samningunum um þetta stórræði lá mikil vinna margra allt frá árinu 1960, þegar Alusuisse kom hugmyndinni á framfæri við Bjarna Benediktsson iðnaðarráðherra. Var meginþáttur starfsins í höndum stóriðjunefndar undir forystu Jóhannesar Nordal, sem m.a. kannaði um víðan heim, hvort fleiri kostir væru í boði en samstarf við þetta álfélag, ásamt því að fjalla um staðarval. Hún skilaði lokaskýrslu í nóvember 1964, og var unnt að leggja hana til grundvallar að endanlegri samningsgerð undir forystu Jóhanns Hafstein iðnaðarráðherra, sem lagði málið fyrir Alþingi vorið 1966. Að samþykki þess fengnu var ÍSAL stofnað 28. júní og þá ritað undir rafmagnssamning við Landsvirkjun ásamt hafnar- og lóðarsamningi við Hafnarfjarðarkaupstað. Gengu samningarnir í gildi 20. september, eftir að fjármögnun framkvæmda á báða bóga hafði verið leidd til lykta og öðrum undirbúningsskilyrðum fullnægt.
 
Álverið í Straumsvík tók svo til starfa árið 1969, með úrvals starfsfólki í öllum deildum. Af hálfu Alusuisse var mikil áhersla lögð á þá hættu, sem fyrirtækinu stafaði af verkföllum, vegna eyðileggingar sem fylgja myndi ef súrál í bræðslu frysi í kerum verksmiðjunnar. Um takmörkun á þeim var ekki unnt að semja, en aðilum kom saman um að farsæl lausn gæti orðið í þá átt, að samningsréttur fyrir alla starfsmenn yrði á einni hendi, auk þess sem eðlilegt væri að ÍSAL stæði utan samtaka vinnuveitenda fyrst um sinn. Fyrir tilstuðlan manna eins og Hermanns Guðmundssonar hjá Hlíf og Halldórs H. Jónssonar hjá ÍSAL beindist málið í þann farveg, að gerður yrði einn kjarasamningur við félagið fyrir allt starfslið þess, með aðild allra hlutaðeigandi starfsgreinafélaga. Hefur sú skipan haldist til þessa dags, og kjaradeilur verið leystar án þess að meiriháttar vinnustöðvun kæmi til.

 

Í öndverðu var óhjákvæmilegt að setja margar sérreglur um fyrirtækið vegna sérstöðu þess og stærðar í íslensku samfélagi, að meðtöldu því að starfsemin byggðist á orkusamningi til langs tíma (25 + 15 ára), þar sem rafmagn væri nýtt allan sólarhringinn árið um kring. Var unnt að benda á að meginreglur íslenskra laga um jafnrétti og eignavernd o.s.frv. kynnu að koma að takmörkuðu haldi vegna vöntunar á samanburði við hliðsetta aðila. Þessar sérreglur giltu m.a. á sviði skattamála og umhverfisverndar, og má segja að þær hafi komið báðum aðilum að gagni meðan þeirra naut við. Á þessu hefur mikil breyting orðið í áranna rás, m.a. við endurskoðun samninga árin 1983-1985, og er nú svo komið að sérreglurnar hafa flestar eða allar verið felldar niður. Ennfremur hefur forsendum orkusölu til fyrirtækisins verið breytt að nokkru með hliðsjón af því, að samkeppnisstaða Íslands gagnvart nágrannaríkjum austan og vestan hafsins er nú önnur og styrkari en áður var, eins og vonir stóðu til þegar af stað var farið.

Vegna tækniþróunar hefur sú almenna breyting orðið, að stærð álvera er farin að skipta meira máli um hagkvæmni þeirra en talið var fyrr á árum. Þessi þróun hefur bitnað á stöðu Íslands í samkeppninni við umheiminn og getur valdið því, að lítið rými verði fyrir fleiri eða stærri álver í landinu. Í því sambandi má e.t.v. minnast þess, að í atkvæðagreiðslu fyrir nokkrum árum felldu Hafnfirðingar hugmyndir álfélagsins um stækkun og fjölgun kerskálanna í Straumsvík. Þarna komu umhverfissjónarmið til skjalanna eins og eðlilegt var, en umfram það má geta þess til að margir Hafnfirðingar hafi verið farnir að líta á álverið sem tiltölulega sjálfsagðan hlut, þannig að ekki þyrfti að hafa miklar áhyggjur af fyrirtækinu eða starfsfólki þess í núverandi skorðum. Hvað sem því líður varð niðurstaðan afdrifarík að því leyti, að hún ýtti undir hugmyndir um uppbyggingu álvera annars staðar, sem því miður reyndust ótímabærar, en það er önnur saga.

Í Straumsvík á ÍSAL (Rio Tinto Alcan) og starfsfólk þess nú í harðri kjaradeilu, sem staðið hefur á annað ár og valdið margskonar óvissu fyrir báða aðila. Fyrir mitt leyti hef ég reynt að vera bjartsýnn um að lausn geti fundist, og um þessar mundir liggur fyrir miðlunartillaga frá sáttasemjara ríkisins, sem aðilarnir hafa til skoðunar. Ég ætla mér ekki að láta í ljós álit á tillögunni eða öðrum lausnum meðan á því stendur, enda væri slík framhleypni fjarri lagi. Með vísan til þess að ofangreind tímamót í sögu fyrirtækisins ber upp á hátíðina er á hinn bóginn full ástæða til að óska Rio Tinto Alcan og starfsfólki álversins gleðilegra páska 2016, ásamt því að láta í ljós vonir um, að áliðnaður á Íslandi geti átt sér trausta og bjarta framtíð enn um sinn.

Hjörtur Torfason.

Höfundur er lögfræðingur.


Sjá einnig