Guðbjörg Óskarsdóttir hélt erindi á ráðstefnu Álklasans um þarfir og lausnir í áliðnaði í nóvember 2…
Guðbjörg Óskarsdóttir hélt erindi á ráðstefnu Álklasans um þarfir og lausnir í áliðnaði í nóvember 2014.

Fjölbreytt flóra fyrirtækja í Álklasanum

Álklasinn er nýstofnaður grasrótarklasi sem var stofnaður formlega 29. júní í fyrra. Lagður var grunnur að stofnun klasans á fjölsóttum stefnumótunarfundi sem haldinn var í Borgarnesi í apríl 2014. Þar kom saman fjölbreytt flóra fyrirtækja sem átti sammerkt að starfsemi þeirra hafði snertiflöt við áliðnað á Íslandi. Guðbjörg Óskarsdóttir hefur verið klasastjóri frá stofnun Álklasans og var hún spurð nokkurra spurninga um starfsemi og markmið klasans.

 

Hverskonar fyrirtæki standa að baki Álklasanum?

Fjölmörg fyrirtæki koma saman í Álklasanum. Þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að starf þeirra tengist á einhvern hátt áliðnaði. Á meðal stofnaðila eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, tæknifyrirtæki, málmsteypur, skipafélög, verktakafyrirtæki, fjármálastofnanir, rannsókna- og menntastofnanir, auk álveranna þriggja á Íslandi.

Hver er tilgangurinn með stofnun Álklasans?

Markmið Álklasans er að efla samkeppnishæfni með virðisauka fyrir þau fyrirtæki sem í Álklasanum eru og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.

Í stefnunni sem mörkuð var á fundinum kom skýrt fram að Álklasanum er ætlað að farvegur hugmynda, þarfa, tengslamiðlunar og nýsköpunar. Ennfremur að Álklasinn verði vettvangur þar sem hægt er að viðra hugmyndir að verkefnum eða kalla eftir lausnum. Horft er til meiri fjölbreytni og fjölgun á fyrirtækjum í afleiddum nýiðnaði. Ál verði nýtt sem grunnur nýsköpunar jafnt í grónum fyrirtækjum sem sprotafyrirtækjum.

Hvernig fer starfsemin fram?

Starfsemin er þríþætt. Álklasinn grasrótarklasi og er markmiðið að halda yfirbyggingu í lágmarki.  Klasastjóri og stjórn klasans setja saman áherslur og forgangsraða verkefnum.  Fulltrúar fyrirtækja í klasanum koma að klasaverkefnum og er samsetning verkefnahópa mismunandi eftir viðfangsefnum og áhersluþáttum.

Hvað hefur áunnist?

Það hefur nú þegar skilað árangri að hafa vettvang sem einfaldar og greiðir fyrir samskiptum innan álgeirans. Þetta hefur margvíslega kosti í för með sér og nú þegar höfum við fundið fyrir ánægju hjá fræðasamfélaginu, en tvö meistaraverkefni eru í farvatninu þar sem klasinn og klasatengingin hefur ýtt undir þá ákvörðun nemendanna að taka til skoðunar málefni áliðnaðar á Íslandi. 

Þá hefur verið hleypt af stokkunum samstarfsverkefni við Íslandsstofu, sem einn stofnaðila að klasanum, og Samál þar sem unnið er að því að kortleggja útflutningstækifæri fyrirtækja sem starfa á sviði áliðnaðar á Íslandi. Íslandsstofa hefur á undanförnum misserum unnið sambærilegar úttektir á öðrum atvinnugreinum sem reynst hafa góður grunnur til að þjónusta fyrirtækin betur.  Markmiðið er að fá yfirsýn yfir hindranir, möguleg samstarfsverkefni og þau sóknarfæri sem eru í sjónmáli hjá fyrirtækjum sem horfa til útflutnings.  

Er mikil verðmætasköpun í íslenskum áliðnaði?

Já, nýverið kom út skýrsla Hagfræðistofnunar sem sýnir að heildarframlag fyrirtækja í starfsemi tengdri áliðnaði nam nálægt 6,8% af landsframleiðslu árin 2011 og 2012. Áliðnaður er undirstöðuatvinnuvegur á Íslandi. Álfyrirtækin skipta árlega við hundruð annarra íslenskra fyrirtæka og ný fyrirtæki hafa sprottið upp í kringum áliðnaðinn. Þess vegna felst mikilvægi álklasans ekki einungis í ávinningi hvers og eins fyrirtækis sem tekur þátt í klasanum. Það er ekki síður mikilvægt að virkja sem best þau þjóðhagslegu verðmæti og sóknarfæri sem klasasamstarfið gefur kost á.

Er Álklasinn vettvangur fyrir rannsóknir og þróun?

Eitt af meginmarkmiðum klasans er að stuðla að aukinni nýsköpun og eru öflugar rannsóknir og þróun á þessu sviði því mjög mikilvægar.  Gott samstarf er við bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík auk rannsóknarstofnana á borð við Nýsköpunarmiðstöð Íslands er mikilvægt í þessu sambandi og það má ætla að kröftug samstaða fyrirtækja á sviði áliðnaðar hafi átt þátt í því að nú er áhersla á verkefni á sviði efnistækni hjá Tækniþróunarsjóði.

Tekur Álklasinn þátt í Evrópusamstarfi?

Álklasinn leggur áherslu á gott samstarf við aðra klasa og fyrirtæki og teljum við að slík samvinna sé  undirstaða að árangri á mörgum sviðum.  Í þessu samhengi hefur Álklasinn nú leitast eftir og fengið styrk til eflingar á samstarfi við klasa í Evrópu.  Sú samvinna hefur stuðlað að samstarfi við klasa í Noregi og Bretlandi og framundan er umsókn um samstarfsverkefni þar sem fyrrnefndir klasar auk klasa frá Þýskalandi, Frakklandi og Póllandi koma að málum. Hugmyndin þar er að leita leiða til að efla lítil og meðalstór fyrirtæk innan þessara klasa með tengingu við stærri og reynslumeiri fyrirtæki innan klasanna. Samskonar verkefni hefur verið keyrt með góðum árangri í Bretlandi og yfirfærsla þess hingað til Íslands sýnir vel hve mikils virði samstarf milli klasa getur verið.

 

Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir er klasastjóri Álklasans og efnaverkfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hún hefur á sínum starfsferli unnið við rannsóknir, þróun og nýsköpun bæði hérlendis sem og í Bandaríkjunum. Guðbjörg er með BS. gráðu frá Háskóla Íslands í efnafræði og M.Sc. og Ph.D gráðu í efnaverkfræði frá Purdue University í Bandaríkjunum. 

Sjá einnig