„Skemmst er frá því að segja að undirtektir almennings voru frábærar og söfnuðust hundruð þúsunda sp…
„Skemmst er frá því að segja að undirtektir almennings voru frábærar og söfnuðust hundruð þúsunda sprittkerta,“ segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls. „Úr varð að söfnun áls í sprittkertum er orðin varanlegur kostur í endurvinnsluflóru landsmanna.“

Gefum jólaljósunum lengra líf

Nú er rúmt ár liðið frá því söfnunarátakinu „Gefum jólaljósunum lengra líf“ var ýtt úr vör, en það var eitt fyrsta verk Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. Lagt var upp með að safna álinu úr sprittkertunum, sem lýsa upp myrkasta skammdegið hér á Norðurhjaranum, og vekja almenning um leið til umhugsunar um möguleikana sem felast í endurvinnslu þess áls sem til fellur á heimilum, enda er álið þeim kosti gætt að það má endurvinna aftur og aftur, án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum.
 

Skemmst er frá því að segja að undirtektir almennings voru frábærar og söfnuðust hundruð þúsunda sprittkerta. Úr varð að söfnun áls í sprittkertum er orðin varanlegur kostur í endurvinnsluflóru landsmanna, en því má m.a. skila á stöðvar Sorpu og Endurvinnslunnar, í dósagáma Grænna skáta og í tunnur Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins. Enn höfum við því kost á að gefa jólaljósunum lengra líf. Frumkvæðið að átakinu kom frá Samáli, en það voru öflug fyrirtæki og samtök sem gerðu það að veruleika, Alur álvinnsla, Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Hringrás, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samtök iðnaðarins og Sorpa.

Til þess að efniviðurinn eignaðist framhaldslíf þótti kjörið að fá hönnuði til þess að bregða á leik. Valdir voru hönnuðir með ólíkan bakgrunn; hönnuðir með yfirgripsmikla reynslu, en einnig ungir og upprennandi hönnuðir með nýjar nálganir. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Málmsteypuna Hellu, sem hefur frá upphafi endurunnið ál í sinni framleiðslu og einbeita hönnuðir sér að framleiðslumöguleikum þeirra. Áhersla var lögð á nytjahluti fyrir íslenskan veruleika og innblástur sóttur í daglegt líf.

Það var Alur álvinnsla sem endurvann álið í sprittkertunum, en þar eru til skoðunar leiðir til frekari endurvinnslu áls á Íslandi, og munirnir voru svo framleiddir hjá Málmsteypunni Hellu. Afraksturinn var til sýnis á afmælisopnun Hönnunarmars í Hafnarhúsinu, en þar sýndu Ingibjörg Hanna, Olga Ósk Ellertsdóttir, Sigga Heimis og Studio Portland. Það var einkar ánægjulegt að stóllinn Kollhrif, sem Sölvi Kristjánsson hjá Studio Portland hannaði, var valinn úr fjölda tilnefninga sem dæmi um vel heppnaðan sjálfbæran stól á loftslagsráðstefnuna í Póllandi í síðasta mánuði.

Það finna allir bylgjuhreyfinguna í samfélaginu, fólk vill leggja sitt af mörkum til að draga úr sóun, flokka og skila til endurvinnslu. Söfnunarátak sprittkerta er gott dæmi um ávinninginn af þeirri hringrás, þar sem margir standa saman að því að koma góðu til leiðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda. Netfangið er pebl@samal.is. Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2019. 


Sjá einnig