Hefur álverið í Straumsvík sérstöðu?

Finnur Magnússon lögmaður gerir stöðu álversins í Straumsvík að umtalsefni í fróðlegum pistli í Morgunblaðinu:

„Hinn 1. desember var fyrirhuguðu verkfalli starfsmanna álversins í Straumsvík (ISAL) aflýst. Að sögn samninganefndar starfsmanna álversins var gagnslaust að halda verkfallinu til streitu þar sem ljóst var að ekki væri hægt að semja við eiganda ISAL. Næsta dag var haft eftir forstjóra Alcan á Íslandi, Rannveigu Rist, að ánægjulegt væri að ekki hefði þurft að slökkva á kerum álversins. Í yfirlýsingu frá henni sagði orðrétt: „Deilan snýst um þá staðreynd að ISAL situr ekki við sama borð og önnur fyrirtæki hvað varðar möguleika á útvistun verkefna. Hömlurnar á fyrirtækið hvað þetta varðar eiga sér enga hliðstæðu á Íslandi og það er skýr krafa að þær verði rýmkaðar eins og við höfum farið fram á. Það felur ekki í sér neinar heimildir eða svigrúm sem önnur fyrirtæki hafa ekki almennt á Íslandi.“ Í þessari grein verður gerð grein fyrir sérstakri stöðu ISAL samkvæmt íslenskum lögum. 

Álverið í Straumsvík var fyrsta erlenda fjárfestingin hér á landi eftir seinna stríð og gilda um rekstur álversins sérstakar reglur sem ekki gilda um önnur fyrirtæki hér á landi. Það er því rétt að ýmislegt í rekstri fyrirtækisins eigi sér enga hliðstæðu hér á landi.

Eiga þær m.a. við um takmarkanir á útvistun verkefna sem takmarkar svigrúm eiganda fyrirtækisins til að hagræða í rekstri sínum. Á sama tíma gilda hins vegar jafnframt reglur sem veita eiganda fyrirtækisins aukna vernd miðað við þær reglur sem gilda um önnur fyrirtæki hér á landi.

Til marks um sérstöðu ISAL er rétt að geta þess að sérstök lög voru samþykkt af hálfu Alþingis við stofnun félagsins. Samkvæmt lögum nr. 76/1966 um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík skuldbatt íslenska ríkið sig til að grípa til fjölmargra ráðstafana sem miðuðu að því að veita félaginu sérstaka stöðu. Umrædd sérstaða var rökstudd með vísan til þess að með byggingu álversins skuldbatt svissneskt félag sig til að eyða miklum fjármunum hér á landi til að reisa nútímalegt álver á þess tíma mælikvarða. Þá hafði íslenska ríkið ennfremur mikla hagsmuni af byggingu álversins. Ef af byggingu þess yrði skuldbatt Alþjóðabankinn í Washington sig til að lána Landsvirkjun þannig að unnt væri að reisa Búrfellsvirkjun en rafmagnið sem framleitt yrði þar skyldi veitt til hins nýja álfyrirtækis. Þetta leiddi síðar til þess að umframorku virkjunarinnar var veitt til íslenskra heimila og bætti það verulega aðgang almennings að rafmagni. Fram að því hafði rafmagn verið skammtað í Reykjavík þegar rafmagnsnotkun náði hámarki, s.s. á jólum, þar sem raforkuframleiðsla annaði ekki eftirspurn.

Sérreglurnar sem um ISAL gilda hér á landi hafa skírskotun til alþjóðlega meginreglna fjárfestingaréttar. Samkvæmt 35. gr. laga nr. 76/1966 ber ríkisstjórninni t.d. jafnan að tryggja „… að farið sé með fjárfestingar Alusuisse […] og ISAL á réttlátan og sanngjarnan hátt, svo og að veita slíkum fjárfestingum ávallt vernd og öryggi…“ Meginreglum af þessum toga var sjaldan beitt þegar samningurinn milli íslenska ríkisins og svissneska fyrirtækisins var gerður árið 1966. Á undanförnum 20 árum hefur þýðing meginreglnanna hins vegar aukist, og hafa fjárfestar höfðað gerðardómsmál á hendur ríkjum vegna brota á þessum meginreglum. Svo eitt dæmi sé tekið þá var Tékkland dæmt árið 2001 til greiða 270 milljónir dollara í skaðabætur vegna brota á þessum meginreglum.

Í þessu samhengi má nefna það að ríkisstjórnin sem sat hér á landi árin 2009-2013 braut loforð sem gefið var ISAL og framlengdi gildistíma tímabundins skatts í trássi við yfirlýsingar þar um. Verður raunar að telja að ástæða hafi verið fyrir ISAL að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum eða alþjóðlegum gerðardómstólum.

Af þessu er ljóst að staða ISAL er um margt sérstök og frábrugðin stöðu íslenskra fyrirtækja almennt. Að teknu tilliti til fyrrgreindra ákvarðana stjórnvalda kemur því ekki á óvart að félagið hafi nú ákveðið að stíga niður fæti gagnvart verkalýðsfélögum og krafist aukins svigrúms til hagræðingar. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að erfiðar rekstraraðstæður álvera í heiminum hafa víða neytt eigendur þeirra til að hætta rekstri. Ekki er sjálfsagt að rekstur álversins í Straumsvík haldi áfram skili félagið jafnmiklu tapi og það hefur gert á undanförnum árum.“

Sjá einnig