Heimsókn frá álsamtökum í Evrópu

Heimsókn frá álsamtökum í Evrópu

Samtök álframleiðenda í Evrópu hittast tvisvar á ári og bera saman bækur sínar. Vorfundur samtakanna fór að þessu sinni fram á Íslandi þann 30. júní. Daginn eftir flaug hluti fundarmanna austur á land og heimsótti Alcoa Fjarðaál, auk þess að skoða Kárahnjúkavirkjun og Skriðuklaustur. Punturinn yfir i-ið var að rekast á stóran hreindýrahóp á heimleiðinni.

Hópurinn samanstóð af þeim Pétri Blöndal framkvæmdastjóra Samáls, Will Savage formanni Aluminium Federation (ALFED) og bresku álsamtakanna, Kristínu Sigurjónsdóttur framkvæmdastjóra AMS - (Aluminiumindustriens Miljøsekreariat), Bob Lambrechts frá Evrópsku álsamtökunum, Frank Buijs frá VNMI í Hollandi, Orazio Zoccolan frá álsamtökunum á Ítalíu og var sonur hans Matteo einnig með í för, Caroline Colombier frá frönsku álsamtökunum og Roman Stiftner frá álsamtökunum í Austurríki.
 
Hjá Fjarðaáli fékk hópurinn kynningu á fyrirtækinu og skoðunarferð um verksmiðjuna. „Þetta var virkilega skemmtileg og stórfróðleg ferð austur,“ segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls. „Það var gaman að sjá hversu áhugasamir og hrifnir framkvæmdastjórar álsamtakanna í Evrópu voru af því sem fyrir augu bar, enda er Alcoa Fjarðaál fyrirmynd í svo mörgu og gildir þá einu hvort litið er til framleiðsluferla, tæknibúnaðar, öryggis- eða umhverfismála.“

Eftir hádegismat var haldið inn að Kárahnjúkum en þar tók leiðsögumaður á vegum Landvirkjunar á móti hópnum og sagði frá áhugaverðum staðreyndum um þessa stærstu stíflu í Evrópu.
 
Ferðinni lauk svo á Skriðuklaustri þar sem gestirnir kynntust íslenska rithöfundinum Gunnari Gunnarssyni og gæddu sér þar á rómuðum veitingum. Á leiðinni aftur til Egilsstaða var hópurinn svo heppinn að rekast á hóp af um 20 hreindýrstörfum á beit neðan við bæinn Brekku í Fljótsdal. Tarfarnir létu það ekki raska ró sinni að þessi hópur raðaði sér upp á veginum skammt frá þeim til að taka myndir. Will Savage formaður ALFED og bresku álsamtakana sagði í gamni að þessi hreindýrafundur toppaði næstum allt huldufólkið sem hann fullyrti að hann væri búinn að rekast á hér á landi en íslensku þjóðsögurnar af huldufólki heilluðu hann sérstaklega.

Á myndinni er hópurinn við Skriðuklaustur, frá vinstri: Bob Lambrechts EAA, Kristín Sigurjónsdóttir AMS, Pétur Blöndal Samáli, Frank Buijs VNMI, Will Savage ALFED, Matteo Zoccolan, Assomet - Centroal, Caroline Colombier Association Française de l'Aluminium og loks Roman Stiftner WKO.

Sjá einnig