Hlutur íslensks áls í rafbílaflotanum að aukast

Hlutur íslensks áls í rafbílaflotanum að aukast

Álfyrirtækið Rio Tinto í Straumsvík í Hafnarfirði, hóf í byrjun þessa árs framleiðslu á stuttum álstöngum – meira unnum afurðum en þær lengri, sem nýtast í fleiri þætti við framleiðslu bíla í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þóroddur Bjarnason gerir þessari framþróun skil í Morgunblaðinu og á Mbl.is

Árni Stefánsson, framkvæmdastjóri steypuskála, segir í viðtali í blaðinu að með nýrri framleiðslutækni séu álstangirnar nú notaðar í ríkari mæli en áður í framleiðslu bíla, í þeim tilgangi að gera þá léttari og þar með langdrægari. „Það er alltaf verið að auka hlutfall áls í bílunum til að létta þá og þar með minnka eyðslu og mengun þeirra. Álstangirnar sem við framleiðum hafa verið mest notaðar í byggingariðnaðinum, í glugga- og hurðaprófíla, en núna fara um 10% framleiðslunnar í bíla,“ segir Árni.

Aðspurður segir hann að íslenskt ál sé nú þegar í bílum sem komnir eru á göturnar hér á landi, og það eigi eftir að aukast enn frekar á næstu misserum. „Bílaiðnaðurinn er farinn að nota ál í auknum mæli í árekstrarstyrktarbita og í kæli/hita kerfin, en þar tekur álið við af kopar.“ 

Árni segir að álstangirnar séu framleiddar eftir óskum hvers viðskiptavinar hvað varðar efnisinnihald, sverleika og lengd, allt eftir því í hvað á að nota það. Í hreint, fljótandi ál sé þannig bætt við efnum eins og títan, kopar eða magnesíum. Álið sé síðan formað í stangir með sverleika frá 178 mm upp í 305 mm með lengdina frá 80 sentimetrum upp í 8 metra. „Með nýrri framleiðslutækni er auðveldara að gera flóknari form. Þegar viðskiptavinurinn fær stangirnar frá okkur hitar hann þær upp í 500 °C, setur síðan álið í einskonar sprautu og svo er því sprautað í gegnum þar til gerð mót.“

Þá segir Árni í Morgunblaðinu að Rio Tinto framleiði 230 þúsund tonn af álstöngum á ári. „Dæmigerður viðskiptavinur okkar er að framleiða úr 3-15 þúsund tonnum frá okkur á ári, sem þýðir að viðskiptavinahópurinn er stór.“

Árni segir að íslenska álið njóti aukinna vinsælda. „Bílaframleiðendur eru farnir að horfa í síauknum mæli á kolefnisfótsporið í framleiðslunni, sem hefur aukið eftirspurnina hjá okkur, enda er framleiðsla okkar grænni en flestra annarra. Í framtíðinni má telja líklegt að ábyrgir bílaframleiðendur verði tilbúnir að greiða meira fyrir ál með grænu fótspori.“

Nýjung

» Efniseiginleikar gera ál ákjósanlegra en stál.
» Margir stærstu bílaframleiðendur heims nota íslenskt ál.
» Einnig notað í betri reiðhjól.
» 5% framleiðslunnar í loftkælingar í bílum.
» Heildarkostnaðurinn við verkefnið er um 280 m.kr.

Sjá einnig