Horft til áratuga í áliðnaðinum

 

Þótt lækkandi álverð hafi neikvæð áhrif á rekstur Norðuráls á árinu er framtíð félagsins björt að mati Ragnars Guðmundssonar forstjóra, en Kári Finnsson tekur viðtal við hann fyrir sérblaðið Orku & iðnað í Viðskiptablaðinu. Skammtímasveiflur í álverði hafa lítið að segja um rekstur fyrirtækisins hugsað er áratugi fram í tímann að sögn Ragnars. Álver í Helguvík er enn á borðinu og áliðnaðurinn á Íslandi mun koma til með að stækka enn frekar að hans mati.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, hefur að baki mikla reynslu í álgeiranum en hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1997. Reksturinn hefur gengið vel að hans sögn síðustu ár en hræringar á álverði hafa reynst fyrirtækinu illa í sumar. Áliðnaðurinn er hins vegar hugsaður til langs tíma að sögn Ragnars og því segja skammtímasveiflur lítið um framtíðaráform fyrirtækisins.

„Auðvitað eru sveiflur í álverði og við sjáum niðursveifluna núna, en sveiflur eru hluti af þeim veruleika sem við erum í. Ég hef verið í þessum bransa í átján ár og hef margoft séð álverð fara bæði upp og niður. Það er hluti af rekstrinum að gera ráð fyrir svona sveiflum,“ segir Ragnar en þá vísar hann til þeirrar staðreyndar að verð á áli á málmkauphöllinni í London hefur lækkað um 12,5% það sem af er ári. Hann vonar að það rétti úr álverði frekar fyrr en síðar.

Ein stærsta ástæðan fyrir mikilli lækkun álverðs í ár er vegna hræringa í Kína en um 54% af eftirspurn eftir áli í heiminum koma frá Kína. „Það hefur verið gríðarlega mikil uppbygging þar í landi, bæði hafa þar byggst upp álver og einnig hefur verið gjörbylting á samfélaginu,“ segir Ragnar um þróunina í Kína. „Kína er að færast frá því að vera frekar vanþróað samfélag yfir í að verða nútímalegra borgarsamfélag og þessi breyting hefur kallað á stóraukna álnotkun.

Efnahagskerfið hefur þróast í átt að kapítalisma en enn er miðstýring á sumum sviðum svo sem varðandi útflutningsstyrki. Lækkun á álverði nú er knúin áfram af auknum álútflutningi frá Kína sem reyndar eru áhöld um að standist lög og reglur um alþjóðaviðskipti.“

Álverðssveiflur kalla á aukið aðhald

Spurður að því hvernig sveiflur á álverði hafa áhrif á rekstur Norðuráls segir Ragnar að þær kalli fyrst og fremst á aukið aðhald í rekstrinum á meðan þær ganga yfir. Fyrirtækið er ekki varið sérstaklega fyrir slíkum sveiflum með afleiðusamningum en orkusölusamningar þeirra eru bundnir við álverð og léttir það því róður fyrirtækisins þegar álverð lækkar. Ragnar vildi ekki tjá sig um það hversu hátt álverð þurfi að vera til þess að Norðurál sé sátt við reksturinn né hvort núverandi álverð sé ásættanlegt en bætir þó við að hann vonist til að það verði hærra.

„Allar þær spár sem ég hef séð ganga út á að álverð muni hækka til lengri tíma,“ segir hann. Á síðustu tíu árum hefur álframleiðsla á Íslandi stóraukist og sér Ragnar fyrir sér að Norðurál muni bæta við afköstum áfram.

„Þegar við kláruðum að byggja síðasta áfanga álversins árið 2007 vorum við með 260.000 tonna afkastagetu en í fyrra var framleiðslan komin í tæp 300.000 tonn. Nú nýverið voru drög að endurnýjuðu starfsleyfi auglýst sem gerir okkur kleift að fara í 350.000 tonn,“ segir Ragnar.

Svipuð þróun og í sjávarútveginum

Spurður að því hvernig starfsumhverfi íslenskra álfyrirtækja hefur breyst á síðustu árum segir Ragnar að í áliðnaðnum sé að eiga sér stað svipuð breyting og hefur átt sér stað í sjávarútveginum. „Ef við lítum tíu ár aftur í tímann þá hefur álframleiðsla á Íslandi farið úr 270 þúsund tonnum á ári upp í 850 þúsund tonn,“ segir hann.

„Það má segja að í áliðnaðinum sé að gerast það sama og hefur gerst í sjávarútvegi á lengri tíma að það er að byggjast upp hægt og rólega þekking og þjónustuiðnaður í kringum þennan iðnað. Þetta er orðinn krítískur massi, álklasi, sem myndar grunn fyrir önnur fyrirtæki til þess að byggja á. Ég myndi segja að það væri stærsta breytingin, það er aðgangur að þjónustu og þekkingu innanlands sem áður þurfti að sækja til útlanda. Á stofnfundi álklasans í vor kom einmitt fram hversu stór og fjölbreyttur þessi hópur fyrirtækja og stofnana er. Þessi þróun hefur leitt til þess að fjöldi fyrirtækja er farinn að selja bæði þekkingu og tækjabúnað til álvera um allan heim.

Auk þess hefur mjög verðmæt þekking á nýtingu umhverfisvænnar orku skapast í tengslum við uppbyggingu áliðnaðar hér á landi. Þessi verðmætasköpun hefði ekki orðið nema vegna þess að íslensk orkufyrirtæki hafa sterkan heimamarkað. Það er til dæmis frábært að íslenskir vísindamenn hjá Reykjavík Geothermal og fleiri aðilum séu í forystu um byggingu jarðvarmavers í Eþíópíu sem getur haft mikil áhrif á búsetuskilyrði þar í landi og ef til vill víðar í þeim heimshluta.“

Sérðu fram á að hann muni stækka enn frekar á Íslandi?

„Já, ég held að það sé ekkert óeðlilegt að líta til sjávarútvegsins í því sambandi þar sem hafa byggst upp skemmtileg fyrirtæki í kringum hann. Sæplast sem síðar varð Promens er eitt dæmi, Marel sem sprettur upp úr þjónustu við sjávarútveginn er annað dæmi. Bankarnir hafa líka aflað sér sér þekkingar á fjármögnun sjávarútvegsfyrirtækja, sem er kannski ekki stór hilla en nógu stór til þess að íslenskir bankar geti aflað sér sérstöðu erlendis. Þetta er að gerast í áliðnaðinum líka.

Enn fremur erum við að þróa fjölbreyttari afurðir í takt við framleiðsluaukninguna. Á þessu ári hófum við framleiðslu á svokölluðu melmi eða álblöndum, sem meðal annars eru notaðar í evrópskum bílaiðnaði, en þessar afurðir gefa af sér hærra verð. Við erum svo að skoða enn frekari tækifæri. Álverin sjálf eru einhver tæknivæddustu fyrirtækin á landinu og gríðarlega mikill tæknibúnaður er notaður við rekstur álvera. Bæði er mikil tækniþekking í álfyrirtækjunum sjálfum og á meðal þjónustuaðila sem eru í auknum mæli íslenskir.“

Helguvík getur gengið upp

Uppbygging Norðuráls á álveri í Helguvík hefur lengi verið til umræðu en fyrsta skóflustunga fyrir álverinu var tekin árið 2008. Óljóst er hins vegar hvenær það mun rísa þar sem deilur eru um gildandi orkusölusamning á milli Norðuráls og HS Orku.

Spurður að því hvenær álver muni rísa við Helguvík segir Ragnar að niðurstöðu úr gerðardómsmeðferð í máli fyrirtækjanna tveggja sé að vænta á næsta ári. Hann segist bjartsýnn á að álverið verði reist og að fjárfestingin verði arðbær. „Það sem álfyrirtæki horfa á er auðvitað heildararðsemi fjárfestingarinnar til langs tíma,“ segir Ragnar. „Það gildir um þessa fjárfestingu líkt og allar aðrar fjárfestingar að maður þarf að leggja saman kostnaðarhliðina og áætla tekjurnar. Spurningin er svo hvort ávöxtun er viðunandi að teknu tilliti til áhættu.

Við byrjuðum að byggja á Grundartanga árið 1997 og dæmið gekk upp hjá okkur. Fyrri eigandi átti fyrirtækið í sjö ár og seldi það síðan til Century Aluminum. Ég held að þetta hafi gengið upp hjá fyrri eiganda og núverandi eiganda. Við sjáum sömuleiðis að ef við horfum á afkomuna í orkugeiranum þá er hún mjög góð. Ég ræddi það einmitt á ársfundi Samáls að þarna væri verið að skila tugum milljarða á ári til íslensks samfélags. Þar virðist dæmið líka hafa gengið upp. Er hægt að endurtaka dæmið í Helguvík? Já, ég held það og ég held að það gæti gengið upp fyrir alla aðila. Við þurfum bara að bíða og sjá hvernig úr því vinnst. “

Hvað þarf að gerast til þess að þið hættið alfarið við uppbyggingu álvers í Helguvík?

„Í áliðnaðinum horfum við til áratuga. Það tekur kannski tvö ár að byggja orkumannvirki og álver þannig að það er ekki hægt að vænta tekna fyrr en eftir að minnsta kosti þann tíma. Stundarverðið getur aldrei haft úrslitaáhrif á langtímafjárfestingu sem ætlað er að starfa í marga áratugi,“ segir Ragnar að lokum.

Sjá einnig