Horft til áratuga í áliðnaðinum

Útflutningstekjur áls námu 227 milljörðum í fyrra. Það eru um 40% af útflutningsverðmæti Íslendinga. Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV um ársfund Samáls, Samtaka álframleiðenda. Í fréttinni segir ennfremur:
 

Ársfundur Samáls, samtaka álframleiðenda, var haldinn í Hörpu í morgun. Á fundinum var fjallað um stöðu og framtíð áliðnaðarins. Þar kom fram að útflutningstekjur áls á síðsta ári hafi numið 227 milljörðum króna eða um 40% af útflutningsverðmæti Íslendinga. Þá hafi álfyrirtækin keypt þjónustu af um 700 fyrirtækjum fyrir um 25 milljarða. Ragnar Guðmundsson, stjórnarformaður Samáls og forstjóri Norðuráls, segir að innan fárra ára geti Landsvirkjun greitt 30-40 milljarða króna í arð á hverju ári, miðað við óbreytt orkuverð. Til samanburðar sé veiðigjald í sjávarútvegi um 10-15 milljarðar.

„Við vorum að benda á að áliðnaðurinn er orðinn jafnfætis sjávarútvegi sem grunnatvinnuvegur fyrir íslensku þjóðina. Ásamt ferðaiðnaði eru þá komnar þrjár mjög mikilvægar stoðir fyrir efnahagslíf Íslendinga,“ segir Ragnar.

Nú hefur álverð verið heldur að lækka undanfarin ár - hefur það ekki bitnað á þessum iðnaði?

„Álverð sveiflast alltaf milli tímabila ár frá ári. Og við erum að horfa á langtímaþróun í því, hvernig það hefur þróast. Og við erum að sjá að ál er að halda í við verðlagsþróun almennt þegar til lengri tíma er litið.“

Þannig að lækkandi álverð er ekkert sérstakt áhyggjuefni fyrir þennan iðnað?

„Við erum ekki að horfa á skammtímasveiflur. Við erum að horfa til lengri tíma. Þetta er iðnaður sem er kominn til að vera. Við höfum byggt mjög dýrar fjárfestingar sem endast í marga áratugi. Þess vegna verðum við að horfa til áratuga en ekki til einstakra mánaða,“ segir Ragnar.


Sjá einnig