Stóriðjustörf skemmtileg og fjölbreytt

Stóriðjustörf skemmtileg og fjölbreytt

„Esther, Eyrún og Sunna Björg eru allar í draumastarfi sínu og komnar ansi langt með starfsferilinn miðað við frekar ungan aldur,“ skrifar blaðamaðurinn Erla Björg Gunnarsdóttir. „Esther er rafvirki, Eyrún er rafveitustjóri og Sunna Björg er framkvæmdastjóri rafgreiningar og situr því í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Konur eru 20 prósent starfsmanna en þær þvertaka þó allar fyrir að álverið sé karlavinnustaður.“

Fyrsta konan sem er rafveitustjóri

Það verður að teljast fréttnæmt sem fram kemur hjá Eyrúnu í viðtalinu: „Mér skilst að ég sé fyrsta konan til að sinna starfi rafveitustjóra á Íslandi þannig að ég vékk smá svona „vó“ stemmningu í kringum mig. En það er ekkert við þetta starf sem segir að karlmaður ætti að sinna því frekar en kona.“

Fram kemur að það sé helst í stétt iðnaðarmanna að konur séu í miklum minnihluta í álverinu, en það megi heimfæra á samfélagið í heild. „Ég held að það vanti helst fyrirmyndirnar. Á meðan ég var að alast upp gegndu engar konur þessum störfum. Maður sér alltaf bara karla og umræðan er um iðnaðarmennina í karlkyni. Mér datt aldrei í hug að fara í rafvirkjun en núna þegar ég hef kynnst þessu og veit hvað rafvirkjarnir eru að gera þá sé ég hversu skemmtilegt starf þetta er.“

Iðnnám nýtur ekki sannmælis

Esther tekur undir það. „Já, þetta er mjög skemmtilegt. Ég er aldrei að gera sama hlutinn, alltaf á ferðinni, klifra upp á eitthvað og brasa, hitta alls konar fólk út um allt fyrirtæki og spjalla. Dagurinn er ótrúlega fljótur að líða. Það er ekki fyrir alla að sitja við skrifborð og það er sko alls ekki fyrir mig. En svo gæti þetta verið einhver hræðsla í stelpum, sumir eru svo hræddir við rafmagn og vélbúnað. En maður lærir bara á þetta. En já, ég held þetta snúist um að yfirstíga hræðsluna og fá fleiri fyrirmyndir.“
Sunna bætir við að það þurfi líka meiri fræðslu og upplýsingar. „Kynna betur störfin og hvaða verkefni felast í þeim. Þetta eru bara venjuleg störf.“

Og það stendur upp á skólakerfið. „Þegar nám er kynnt í grunnskólum þá er alltaf bara talað um bóknámsbrautir. Það er aldrei sagt: „Hei, stelpur. Komið og kíkið á vélvirkjabrautina.“ Aldrei.“

Sunna klykkir út með: „Það er náttúrulega mikið menntasnobb á Íslandi á þann hátt að iðnnám nýtur ekki sannmælis.“

Margt fleira markvert kemur fram í viðtalinu sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Hér má lesa viðtalið í heild.


Sjá einnig