Framúrskarandi fyrirtæki skiptir um eigendur

 

Fjölskyldufyrirtækið rótgróna J.R.J. verktakar,sem vinnur talsvert fyrir álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík, var selt um áramótin. Kaupendurnir eru Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri Strokks Energy, og fyrirtækið Járn og blikk. „Við keyptum tækin og yfirtókum samninga við Rio Tinto Alcan sem og aðra viðskiptavini," segir Eyþór í frétt í dag í Viðskiptablaðinu og bætir því við að utan um reksturinn hafi verið stofnað nýtt fyrirtæki, sem nefnist JRJ verk.

 
Allir starfsmenn JRJ verktaka munu starfa hjá nýja fyrirtækinu. Í heildina eru starfsmennirnir um 15 talsins en ef mörg verkefni eru fyrir höndum þá er starfsmönnum fjölgað. Nýja fyrirtækið, líkt og forveri þess, verður með aðstöðu inni á lóð álversins í Straumsvík.„Þessi starfsemi er gamalgróin og þetta er eitt af þessum fjölmörgu fyrirtækjum sem tengjast álklasanum og á síðustu árum hefur það styrkt sig mikið," segir Eyþór Arnalds í samtali við Trausta Hafliðason blaðamann Viðskiptablaðsins. 
 
„Fyrirtækið sinnir ýmsum verkefnum fyrir álverið og skylda starfsemi, meðal annars kerbrotavinnslu og er ávallt til taks þegar eitthvað kemur upp á. Þetta er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki sem vinnur náið með álverinu og þetta er líka eitt af fyrstu fyrirtækjunum sem einbeittu sér að þessum rekstri. Samstarfið við RioTinto Alcan hefur í gegnum árin gengið vel fyrir báða aðila."
 
Fram kemur í fréttinni að JRJ verk skilaði góðum hagnaði í fyrra og er eitt af framúrskarandi fyrirtækjumCreditinfo.

Sjá einnig