Ísland með hæsta hlutdeild endurnýjanlegrar orku í Evrópu

Um það bil 71% allrar orku á Íslandi er endurnýjanleg. Þetta kemur fram á fréttavef Viðskiptablaðsins um framvinduskýrslu um endurnýjanlega orkugjafa á Íslandi sem atvinnuvegaráðuneytið og Orkustofnun tóku saman fyrir skemmstu. Skýrsluna í heild sinni má lesa með því að smella hér.

Á fréttavefnum segir að Ísland sé með hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku allra Evrópuríkja en fast á hæla Íslendinga komi Norðmenn með ríflega 69% hlutfall endurnýjanlegrar orku. Í skýrslunni komi fram að komist hafi verið hjá því að um það bil 350 milljón tonn koltvísýrings hafi sloppið í andrúmsloftið.

Því sé ljóst, samkvæmt skýrslunni, að með notkun endurnýjanlegra orkugjafa dragi landsmenn úr annars miklum útblæstri gróðurhúsalofttegunda, sem annars gætu haft hraðaaukandi áhrif á hlýnun jarðar.


Sjá einnig