Kvenréttindadeginum fagnað í Alcoa Fjarðaáli

Kvenréttindadeginum fagnað í Alcoa Fjarðaáli

Frá því álver Fjarðaáls tók til starfa hefur konum á Austurlandi verið boðið í síðdegiskaffi þann 19. júní til þess að fagna afmæli kosningaréttar kvenna. Að meðaltali hafa um tvö hundruð konur mætt, þegið veitingar, hlustað á ræður og notið góðrar tónlistar. Þar sem nú eru liðin 100 ár síðan íslenskar konur fengu kosningarrétt var kvennaboðið í ár sérstaklega veglegt, og í tengslum við það var bæði kynning á átaki UN-Women og opnun ljósmyndasýningar sem nefnist Konur í álveri.

Karlar styðja konur (HeForShe)
Í þetta skipti hófust hátíðarhöldin strax í hádeginu þegar hrint var úr vör HeForShe átaki UN-Women enda er það afar viðeigandi á vinnustað þar sem meirihluti starfsmanna eru karlmenn. Átakið gengur út á að karlar taki afstöðu með jafnrétti kynjanna og lýsi því yfir að þeir séu reiðubúnir að leggja sitt af mörkum í þessari baráttu og sýna það með því að skrifa undir viljayfirlýsingu á vefnum.

Magnús Orri Schram, stjórnarmaður í UN-Women á Íslandi mætti fyrir hönd samtakanna og greindi frá átakinu og mikilvægi þess. Þá flutti einnig Magnús Þór Ásmundson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls erindi og sagði frá því hvers vegna jafnrétti væri honum mikilvægt, og það gerðu einnig þrír aðrir karlar sem starfa hjá Fjarðaáli og sitja í jafnréttisnefnd fyrirtækisins. Það var ánægjulegt að sjá strax afraksturinn en fjöldi karla staldraði við til að skrifa undir viljayfirlýsinguna. Haldið verður áfram á næstunni að vekja athygli á átakinu innanhúss hjá Fjarðaáli svo það nái eyrum sem flestra starfsmanna.

Konur fagna 100 ára afmæli
Kvennaboðið tók við síðar um daginn en þá hittust um tvö hundruð austfirskar konur í matsal Fjarðaáls og áttu skemmtilega stund saman. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins flutti ávarp og talaði þar um það sem áunnist hefur í jafnréttisbaráttunni en minnti einnig á að enn er nokkuð í land og vísaði til dæmis til bágrar stöðu kvenna á forstjórastóli íslenskra fyrirtækja. Þá talaði hún einnig um mikilvægi sterkra kvenfyrirmynda og minntist þar sérstaklega á Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands. Björk Jakobsdóttir, leikkona og skemmtikraftur sá um veislustjórn og að skemmta gestum. Það fór ekki á milli mála að Björk vakti stormandi lukku með ýmsum sögum af eigin óförum og því hvernig það er að vakna skyndilega upp einn daginn sem miðaldra kona.

Söngvari og ljósmyndari úr starfsmannahópnum
Alcoa Fjarðaál býr svo vel að eiga sína eigin Idol stjörnu sem er Hrafna Hanna Herbertsdóttir frá Neskaupstað en hún starfar í kerskálanum. Hún steig á stokk í kvennaboðinu og flutti þrjú lög sem þekktar konur hafa sungið. Um undirleikinn sá hljómborðsleikarinn Helgi Georgsson. Þá sáu þeir Daníel Arason og Jón Hilmar Kárason einnig um tónlistarflutning í veislunni.
 
Boðið var upp á ljúfar veitingar og opnuð var ljósmyndasýningin Konur í álveri með myndum eftir Jón Tryggvason áhugaljósmyndara og starfsmann Alcoa Fjarðaáls. Um er að ræða myndir af konum sem eiga það sameiginlegt að vinna á álverslóðinni, sumar hjá Fjarðaáli og aðrar hjá verktökum á svæðinu. Myndir Jóns endurspegla þann kraft og styrkleika sem býr í þeim konum sem starfa á álverslóðinni við Reyðarfjörð.

Dagurinn var í alla staði vel heppnaður og Alcoa Fjarðaál þakkar öllum þeim konum sem sóttu álverið heim í tilefni dagsins og þeim körlum sem skrifuðu undir HeForShe átakið.

Á myndinni skarta þrír starfsmenn Alcoa Fjarðaáls íslenska þjóðbúningnum í tilefni dagsins, frá vinstri: María Ósk Kristmundsdóttir, Aðalheiður Vilbergsdóttir og Dagmar Ýr Stefánsdóttir.

Sjá einnig