Langar að stuðla að sátt um áliðnaðinn

Pétur Blöndal blaðamaður tók í sumar við starfi framkvæmdastjóra Samtaka álframleiðenda á Íslandi, Samáls, af Þorsteini Víglundssyni sem er orðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.  Pétur hefur lengi verið blaðamaður og hefur skrifað nokkrar bækur. Hann segist alltaf hafa verið fylgjandi skynsamlegri nýtingu á sjálfbærum og endurnýjanlegum orkuauðlindum landsins og það blasi við að það hafi verið farsælt fyrir Íslendinga að eiga í viðskiptum við áframleiðendur. 

„Í fyrsta lagi er framleiðslan mjög stöðug og á því hefur enginn misbrestur orðið, þann tíma sem þeir hafa verið í viðskiptum við Landsvirkjun.  Þetta hefur gert fyrirtækinu kleift að byggja upp öflugt raforkukerfi sem þjónar öllum landsmönnum.  Þannig hefur Landsvirkjun byggt upp eigið fé og skapað gjaldeyristekjur til framtíðar, sem er þjóðinni allri í hag.  Álverin eru líka góðir viðskiptavinir þegar horft er til þess að þeir nota mikla orku og nýta hana jafnt allan sólarhringinn.   Það er líka áhugavert þegar málmurinn er skoðaður, hversu grænn hann er.  Þannig eru 75% af öllu áli sem hefur verið framleitt í heiminum, enn í notkun.  Ástæðan fyrir því er að málmurinn er dýr í frumframleiðslu en það er ódýrt að endurvinna hann, þannig að það er mjög sterkur hvati í hagkerfinu til að gera það.  Sem dæmi má nefna að tölvan mín, af gerðinni Air Mac fer í endurvinnslu á meðan margar aðrar fara í brotajárn.  Það er vegna þess að ytra byrði Air Mac er úr áli.   Annað dæmi um þann efnahagslega ávinning sem felst í endurvinnslu áls, er þróun í samgöngum í heiminum.  Stöðugt meira ál er notað í framleiðslu farartækja af öllum gerðum, til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í veröldinni.  Mikil áhersla er lögð á að létta farartækjaflotann í Evrópu.  Við það mun sparast meira magn koltvísýrings en myndast við frumframleiðslu áls í álfunni.  Því er til dæmis spáð að fram til ársins 2030 muni notkun áls í bílum fjórfaldast frá árinu 2010.“

Starfsmenn álvera líkastir verum frá öðrum hnöttum?

Það virðist í fljótu bragði vera nokkuð stórt stökk að fara úr skriftum og yfir í framkvæmdastjórastólinn hjá Samáli.  Pétur lýsir ástæðunni fyrir því að hann ákvað að taka við þessu nýja starfi, þannig: „Skriftir eru mín ástríða og áhugamál.  Ég sé fyrir mér að ég muni skrifa áfram, samhliða starfinu, því skriftirnar veita mér gleði eins og áhugamál gera.  Mig langaði hinsvegar til að breyta til og mér finnst starfið fyrir Samál bæði krefjandi og ögrandi.  Umræðan um atvinnugreinina hefur að mínu mati, verið á of neikvæðum nótum.  Það er nokkuð sem ég hef áhuga á að stuðla að því að breyta.  Mér hefur stundum fundist sú skoðun ríkjandi hjá ákveðnum samfélagshópi að starfsmenn í álverum líktust helst verum frá öðrum hnöttum. Blessunarlega er sá hópur ekki mjög stór, en engu að síður langar mig að breyta þessari staðlausu ímynd og miðla upplýsingum um það gróskumikla starf sem unnið er í íslensku álverum.  Mig langar að stuðla að sátt um þessa atvinnugrein sem er ein af grundvallarstoðum efnahagslífsins í landinu og skilaði um 100 milljörðum króna í beinhörðum gjaldeyri í þjóðarbúið á síðasta ári.“

Útivistarmaður og náttúruunnandi

Um þessar mundir er að koma út bókin Fjallaland, sem Pétur skrifaði ásamt ljósmyndaranum Ragnari Axelssyni (RAX).  Hana prýða stórkostlegar myndir sem teknar voru á Landmannaafrétti, en þar hefur Ragnar fylgt fjallamönnum eftir í áratugi.  Fylgst er með sterkum karakterum, sem hafa sótt yndi sitt upp til fjalla, í samneyti hvern við annan, skepnurnar og þá stórbrotnu náttúru sem þar er.  Pétur segir að þetta verkefni hafi verið afar skemmtilegt og ferð sem farin var um Jökulgil síðast liðið haust, sé sér ógleymanleg. „ Þar sé ég helst samsvörun í frásögninni af föruneyti hringsins í Hringadróttinssögu Tolkiens,“ segir Pétur. 

Honum finnast þessi sjónarmið ekki í þversögn við hans sýn á stóriðjuna.  „Ég kem inní þetta starf sem útivistarmaður og náttúruunnandi.  Ég efast ekki um að meðal þeirra 5000 manna sem hafa lífsviðurværi sitt beint og óbeint af álframleiðslu séu margir nátturuunnendur.  Enda hef ég orðið þess áskynja í viðtölum við starfsfólk álvera í gegnum tíðina.  Það er ákvörðun þjóðarinnar á hverjum tíma, hvernig hún vill nýta sínar auðlindir.  Ef hún kýs að virkja, hvort sem það er jarðvarmi eða vatnsafl, þá eru álfyrirtæki meðal mögulegra viðskiptavina ogeynslan af áliðnaðinum hefur fram til þessa verið góð.  En ég er talsmaður þess að ganga varlega um náttúruna og nýta hana skynsamlega.  Ef við gerum það og hugsum áður en við framkvæmum, held ég að þetta eigi að geta farið ágætlega saman,“  segir Pétur að lokum.


Sjá einnig