Milljarða framkvæmdir hafnar hjá Norðuráli

Norðurál undirritaði í dag verksamning við ÍAV um byggingu 1600 fermetra mannvirkja við álverið á Grundartanga. Samningurinn er fyrsti áfangi í fimm ára fjárfestingarverkefni Norðuráls þar sem markmiðið er að auka framleiðni, bæta rekstraröryggi og auka framleiðslu um allt að 50 þúsund tonn af áli á ári.

Stærstu verkþættir eru stækkun aðveitustöðvar, umfangsmikil endurnýjun í skautsmiðju og notkun stærri rafskauta.  Heildarkostnaður við verkefnið verður á annan tug milljarða íslenskra króna en kostnaður við fyrsta áfangann nemur þremur milljörðum.

Verkefnastjórar eru Sigurður Arnar Sigurðsson frá Norðuráli, Höskuldur Tryggvason frá ÍAV og Pétur Örn Magnússon frá Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar. Öryggi starfsmanna og umhverfismál eru í forgangi hjá Norðuráli sem hefur samið við verkfræðistofuna EFLU um byggingar- og öryggisstjórnun sem verður í höndum Sigurjóns Svavarssonar.

Verkið er hafið og er búið að steypa nú þegar 150 rúmmetra af undirstöðum undir aðveitustöð.

Verklok eru áætluð á haustmánuðum 2013.

Sjá einnig