Norðurál á meðal hæstu skattgreiðenda

Norðurál á meðal hæstu skattgreiðenda

Landsbankinn greiddi mest allra lögaðila í skatt á síðasta ári, eða um 12,3 milljarða króna, og ríkissjóður kemur þar næst á eftir með 11,2 milljarða króna, að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins.

Norðurál var á meðal tíu hæstu skattgreiðenda með rúma tvo milljarða. Inni í því eru ekki greiðslur til sveitarfélaga, s.s. fasteignagjöld og hafnargjöld. Einungis sjö fyrirtæki greiða hærri skatta og eitt sveitarfélag, þ.e. Reykjavíkurborg.

Í frétt Morgunblaðsins segir:

„Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu á lögaðila á grundvelli rekstrarársins 2015 og námu álögð gjöld samtals 172,4 milljörðum króna en voru 183,8 milljarðar króna á síðasta ári. Lækkunin skýrist af því að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, eða bankaskattur, er ekki lengur lagður á slitabú fjármálafyrirtækja. Því dregst sá liður saman um 25 milljarða króna milli ára.

Stærstu liðir álagðra gjalda á lögaðila eru tekjuskattur og tryggingagjald, og aukast þeir báðir um rúm 9% frá fyrra ári og gjaldendum fjölgar talsvert. Sérstakur fjársýsluskattur, sem er sérstakur tekjuskattur á fjármálafyrirtæki, eykst um 12,9% milli ára þrátt fyrir brotthvarf slitabúa og fækkun gjaldenda úr tíu í átta.

Listi yfir 25 hæstu gjaldendur er hér birtur til hliðar. Bankarnir eru þar ofarlega, eins og sjá má, sem og stærstu útgerðarfyrirtæki og sveitarfélög landsins. Þannig greiðir Reykjavíkurborg um 3,5 milljarða króna í opinber gjöld og einnig eru þarna Kópavogsbær, Hafnarfjörður og Akureyri.

Fleiri eru á listanum, eins og Icelandair Group og dótturfélagið Icelandair, matvöruverslanakeðjan Hagar, stoðtækjafyrirtækið Össur, álver Norðuráls og tryggingarfélögin VÍS og Sjóvá.“


Sjá einnig