Norðurál undirbýr frekari stækkun með straumhækkun

Norðurál undirbýr aukningu framleiðslu í álverinu á Grundartanga með frekari straumhækkun. Umhverfisstofnun hefur gert tillögu að nýju starfsleyfi sem gerir ráð fyrir að framleiðslan geti orðið allt að 350 þúsund tonn á ári, en hún var rétt tæp 300 þúsund á síðasta ári. Jafnframt vinnur Hvalfjarðarsveit að breytingu á skipulagi. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag.

„Við erum að reyna að auka hagkvæmni rekstursins á Grundartanga og auka samkeppnishæfni hans til lengri tíma,“ segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, um ástæður þess að sótt var um leyfi til stækkunar. Norðurál hefur aukið framleiðsluna undanfarin ár með straumhækkun, úr um 260 þúsund tonnum á ári í um 300 þúsund á síðasta ári. Við frekari straumhækkun fer framleiðslan yfir 300 þúsund tonn en Ragnar segir ekki vita nákvæmlega hversu mikið.

Heildarkostnaður við verkefnið er á annan tug milljarða króna. Hluti af honum er vegna framkvæmda sem þegar hefur verið ráðist í.

Hann segir að ástandið á álmörkuðum hafi ekki áhrif á þessi áform. Eftirspurn hafi aukist á undanförnum árum og virðist halda áfram að aukast. Vandamálið sé á framboðshliðinni og vonandi sé það tímabundið.

Í tillögum að nýju starfsleyfi kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að heildarlosun á flúor aukist við aukna framleiðslu. Fyrirhugað sé að auka hreinsun á útblæstri frá kerskálum í þeim tilgangi. Jafnframt kemur fram að mælingar á losun álversins á þungmálum og fleiri efnum verði auknar. Skipulagsstofnun telur að aukningin sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og ekki þurfi því að gera nýtt umhverfismat.

Sjá einnig