Fjölmennt var á Nýsköpunarmóti Álklasans, þar sem kynnt voru fjölbreytt verkefni og veittar hvatning…
Fjölmennt var á Nýsköpunarmóti Álklasans, þar sem kynnt voru fjölbreytt verkefni og veittar hvatningarviðurkenningar.

Ný tækni, orkunýting og rekstrarumbætur á Nýsköpunarmóti Álklasans

Fjölbreytt verkefni voru kynnt á Nýsköpunarmóti Álklasans í síðustu viku og fengu fjórir nemendur hvatningarviðurkenningu. „Rannsóknar- og þróunarstarfsemi leggur grunn að nýrri tækni, orkunýtingu og rekstrarumbótum,“ sagði Guðrún Sævarsdóttir forseti tækni- og verkfræðideildar HR. „Auk þess byggist upp sérfræðiþekking sem aftur skapar frekari tækifæri til þekkingarmiðlunar.“

Hér má sjá upptöku af Nýsköpunarmótinu, sem varpar var út á facebook og á vef Viðskiptablaðsins.

Á Nýsköpunarmótinu hlýddu yfir 100 manns á erindi um nýsköpun, rannsóknir og þróun í áliðnaði og voru framsögumenn frá atvinnulífinu og fræðasamfélaginu. Þar á meðal voru fyrirlesarar frá Laval-háskóla og REGAL rannsóknarmiðstöð áliðnaðarins í Kanada.

Sigurður Magnús Garðarsson sviðsforseti Verk- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands sýndi fram á hvernig háskólinn vinnur með atvinnulífinu og skilar sem hæfustu starfskröftum út í samfélagið. Þorsteinn Ingi Sigfússon sagði frá hlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og spennandi verkefni sem þar er unnið af sprotafyrirtækinu DTE. Kristinn Harðarsson framkvæmdarstjóri fjárfestingar og framleiðsluþróunar hjá Alcoa, veitti innsýn í álver framtíðarinnar og hvaða áhrif aukin sjálfvirkni í framleiðslunni getur haft.

Þá voru fjölmargar örkynningar á nýsköpunar- og sprotaverkefnum, svo sem á sjálfvirkri ástandsgreiningu á deiglum, nýrri áltækni með málmrafskautum, umhverfisvænum toghlerum úr áli, mati á áhrifum forskautseiginleika á kerrekstur með „big data“ eða djúpnámsaðferðum, nýrri aðstöðu til frumgerðasmíða og hvort og hvenær nýting koltvíoxíðs frá iðnaði gæti orðið hagkvæm.

Undir lok mótsins var fjórum háskólanemendum veitt hvatningarviðurkenning fyrir lokaverkefni sem þau vinna að og tengjast Álklasanum. Þeir nemendur sem fengu viðurkenningarskjöld og 250 þúsund króna styrk hver voru: 

Kevin Dillman frá Háskóla Íslands  með verkefnið „LCA greining á íslenskri álframleiðslu“, Leó Blær Haraldsson frá Háskólanum í Reykjavík með verkefnið „Hitaveita með varmaendurvinnslu frá Fjarðaáli, fýsileikagreining“, Matthías Hjartarson frá Háskólanum í Reykjavík með verkefnið „Machine learning for detection of Cryolite electrolyte residue on dark surfaces, in an uncontrolled environment“ og Regína Þórðardóttir frá Háskóla Íslands með verkefnið „Kortlagning á framleiðsluúrgangi sem fellur til innan áliðnaðar“. 

Myndir frá mótinu má sjá hér á vef Álklasans.  

 

Sjá einnig